Ógnar ekki samkomulagi Grikkja og ESB

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambands segir að ákvörðun Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, um að boða til snemmbúinna þingkosninga í landinu muni ekki ógna samkomulagi grískra stjórnvalda og lánardrottna landsins um lánapakka til handa Grikkjum.

Framkvæmdastjórnin telur jafnframt að ákvörðunin muni ekki tefja vinnu grískra stjórnvalda við að ganga að ströngum skilyrðum lánardrottnanna og koma á umbótum í landinu.

„Við skrifuðum undir samkomulag við Grikkland, ekki Tsipras,“ segir einn embættismaður innan framkvæmdastjórnarinnar í samtali við Financial Times.

Hann sagði að kosningar gæfu Grikkjum ekki tilefni til að fresta því að koma á umbótum.

Tsipras tilkynnti einnig afsögn sína í gær. Klofningur hefur verið innan flokks hans, Syriza, vegna þeirra ströngu skilyrða sem lánardrottnarnir hafa sett Grikkjum til að þeir fái frekari neyðarlán.

Grikkir fengu fyrsta hluta lánapakkans í gær, um þrettán milljarða evra, sem gerði landinu kleift að standa skil af afborgun á láni Evrópska seðlabankans.

Embættismenn í Brussel hafa ekki viljað svara því hvort Tsipras hafi látið framkvæmdastjórnina vita um áform sína. Þeir sögðu þó að ákvörðunin hefði ekki komið á óvart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert