Eyðilegging hofsins stríðsglæpur

Hér má sjá hluta af hofinu áður en það var …
Hér má sjá hluta af hofinu áður en það var sprengt í loft upp. AFP

Eyðilegging forna Baal-Shamin hofsins í Palmyra í Sýrlandi hefur nú verið kallað stríðsglæpur af UNESCO. Sýrlensk yfirvöld og aðgerðarsinnar greindu frá því í gær að skæruliðar Ríkis íslams hafi sprengt upp hofið sem var á heimsminjaskrá UNESCO. Í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum kemur fram að eyðilegging hofsins sé „gífurlegur missir fyrir sýrlensku þjóðina og mannkynið.“

Ríki íslams náði yfirráðum í Palmyra í maí og óttaðist alþjóðasamfélagið þá um að fornar rústir í borginni yrðu eyðilagðar.

Borgin var þekkt fyrir vel farnar grískrómverskar rústir og var Baal-Shamin hofið byggt fyrir næstum því 2000 árum. Það var eitt af frægustu byggingum borgarinnar.

Ríki íslams hefur þar að auki skemmt fjölmargar fornar rústir í Írak. Meðlimir hryðjuverkasamtakanna trúa því að öll hof og styttur sem gefa til kynna tilvist annarra trúarbragða en íslam ættu að vera eyðilagðar.

Emma Loosley, prófessor í háskólanum í Exeter sem bjó nálægt Palmyra í þrjú ár segir að innra svæði hofsins hafi verið „fullkomið“.

„Ég man ekki eftir öðru hofi sem var eins vel og fallega haldið við en í Baal-Shamin og það sem var sérstakt við Palmyra var þessi sérstaka menning,“ sagði hún í samtali við BBC. „Borgin átti sína eigin guði, sína eigin list og arkitektúr sem maður sér hvergi annarsstaðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert