Vilja vísa eftirlifanda frá Útey úr landi

Útey þar sem öfgahægrimaður framdi fjöldamorð á 77 manns árið …
Útey þar sem öfgahægrimaður framdi fjöldamorð á 77 manns árið 2011. Nú vilja norsk yfirvöld vísa einum eftirlifendanna úr landi. AFP

Norsk innflytjendayfirvöld hyggjast vísa ungum manni sem lifði af hryðjuverkaárásina í Útey úr landi. Hann er sonur innflytjenda frá Djíbútí sem sögðu yfirvöldum að þeir væru frá Sómalíu við komuna til að auka líkurnar á að fá að dvelja í Noregi. Málið hefur vakið töluverða hneykslan í landinu.

Bræðurnir Mubarak Haji Ahmed og Khalid Ahmed lifðu árásina sem kostaði 77 manns lífið í Útey árið 2011 naumlega af. Bróðir þeirra, Ismail Ahmed, var hins vegar ekki eins heppinn en hann var myrtur fyrir framan þá. Mubarak þjáist enn af geðröskunum í kjölfar lífsreynslunnar auk þess sem hann hlaut heyrnarskaða í skothríðinni. Það hefur hins vegar ekki stöðvað norsk innflytjendayfirvöld í að reyna að vísa honum úr landi, að því er kemur fram í Washington Post

„Þetta mál er skammarlegt fyrir þjóðina. Ef við vísum eftirlifanda úr Útey úr landi verður það viðvarandi skömm. Við ættum að fylkja okkur að baki eftirlifendunum frá Útey sem þjóð en ekki nota opinbera fjármuni til þess að ofsækja þá og jafnvel reyna að hrekja þá úr landi,“ segir Rune Berglund Steen, forstöðumaður norskra samtaka gegn kynþáttahatri.

Börnin gjalda fyrir mistök þeirra fullorðnu

Mubarak var aðeins tíu ára þegar fjölskylda hans kom til Noregs. Hún er upphaflega frá Djíbútí en flutti síðar til Jemen. Þar komust faðir hans og Khalid í hann krappann vegna stjórnmálaskoðana sinna. Til þess að auka líkurnar á að þeim yrðu leyft að vera um kyrrt í Noregi sögðu faðir Mubarak og bróðir að fjölskyldan væri frá Sómalíu sem þá var talið hættulegra land en Jemen.

Fyrr á þessu ári viðurkenndi Khalid ósannindin og yfirgaf Noreg sjálfviljugur. Í kjölfarið voru dvalarleyfi allrar fjölskyldunnar afturkölluð. Faðirinn var sendur til Djíbútí fyrir nokkrum vikum en hann lést fimm dögum eftir komuna þangað. Systir Mubaraks og annar bróðir hans sem einnig lifði árásina í Útey af voru einnig í sömu sporum. Bróðirinn yfirgaf landið í apríl og móðirin hefur sömuleiðis neyðst til þess að fara.

Í svari til Washington Post segir formaður áfrýjunarnefndar innflytjendamála að litið hafi verið til hryðjuverkaárásarinnar og heilsu Mubaraks þegar ákvörðun var tekin um að afturkalla dvalarleyfi hans. Það hafi hins vegar ekki haft úrslitaáhrif um ákvörðunina.

Jostein Løken, lögmaður fjölskyldunnar, er ósáttur við þessar málalyktir og segir ákvörðun yfirvalda ekki á rökum reista. Fyrir utan að ekki ætti að refsa börnum fyrir mistök foreldra þeirra þá hafi fjölskyldan aðlagast norsku samfélagi, börnin hafi alist upp í landinu og eigi allt sitt þar. Sum þeirra hafi jafnvel eignast sín eigin börn sem hafi hafið skólagöngu í leik- og grunnskólum. Ákvörðunin hafi því mikil áhrif á þessa þriðju kynslóð sem eigi nú að gjalda fyrir mistök afa síns og frænda.

Frétt Washington Post af brottvísun eftirlifanda árásarinnar í Útey

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka