Vill milljónir frá sex ára barni

mbl.is

Höfðað hefur verið mál í Austurríki gegn sex ára gamalli stúlku vegna slyss sem átti sér stað í Bregenzerwald við landamæri landsins að Þýskalandi. Stúlkan var á leið niður brekku á skíðum þegar hún beygði skyndilega í veg fyrir konu sem féll við það og varð fyrir alvarlegum meiðslum.

Konan hefur krafið stúlkuna um 38 þúsund evrur í skaðabætur eða sem nemur rúmlega 5,5 milljónum króna. Undir venjulegum kringumstæðum er ekki hægt samkvæmt austurrískum lögum að höfða slíkt mál gegn barni yngra en 14 ára. Hægt er að falla frá því ef sýnt er fram á að barnið hafi getað forðað því að illa færi. Dómstóll metur nú hvort það eigi við í þessu tilfelli.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.at að konan hafi að eigin sögn ekki getað stundað skíði frá því að slysið átti sér stað. Fjárhæð skaðabótakröfunnar sé einnig hugsuð með mögulegan skaða sem hún kunni að verða fyrir til framtíðar vegna afleiðinga slyssins. Gögn málsins þyki benda til þess að skort hafi á athygli hjá bæði stúlkunni og konunni og því sökin hjá þeim báðum.

Málflutningi var frestað á mánudaginn til þess að hægt væri að safna frekari gögnum og heldur áfram eftir þrjár vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert