Fannst eftir níu daga án matar

Það tók konuna tvo daga að skríða beinbrotin að læk …
Það tók konuna tvo daga að skríða beinbrotin að læk til að svala þorstanum og halda sér á lífi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Miyuki Harwood, 62 ára kona, fannst á lífi á laugardag eftir að hafa verið villt í óbyggðum Fresno-sýslu í Kaliforníu í níu daga. Hún týndist í göngu sem hófst 20. ágúst sl. og var matarlaus. Þegar hún fannst var hún beinbrotin og gjörsamlega örmagna.

Örvæntingarfull bjargaði Harwood sér með því að drekka vatn úr lækjarsprænu, en björgunarmenn fundu hana á afar fáförnu og grýttu svæði í Sierra Nevada-fjallgarðinum. Hún hafði aðeins áætlað að verja einum degi á göngu og hafði því engar vistir með sér.

Að sögn lögreglu tók það Harwood tvo daga að skríða slösuð niður að læknum. Reykur frá nálægum kjarreldum torveldaði leit að henni. Björgunarmenn sögðu laun erfiðisins að finna Harwood á lífi.

„Þegar það eru liðnir níu dagar og þú ert farinn að velta því fyrir þér... Og að allt fari svo vel; það er stórkostlegt,“ sagði einn lögreglumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert