Með fjögur börn á leið til Sýrlands

Talið er að konan hafi farið frá London City flugvellinum …
Talið er að konan hafi farið frá London City flugvellinum til Amsterdam í síðustu viku. AFP

Kona frá austur Lundúnum hefur verið handtekin í Tyrklandi en hún er grunuð um að hafa verið á leið til Sýrlands með fjögur börn sín.

Samkvæmt frétt Sky News lýsti lögregla í Lundúnum eftir konunni í síðustu viku en hún hvarf ásamt börnunum af heimili þeirra í Waltham Forest. Talið er að hún hafi ferðast með börnin frá Lundúnum til Amsterdam fyrir viku síðan. Hún hefur nú verið handtekin af tyrkneskum  yfirvöldum sem segja að börnin séu örugg og í góðu ástandi.

Breska lögreglan ræðir nú við kollega sína í Tyrklandi og rannsakar málið.

Að sögn lögreglustjórans Richard Walton voru uppi virkilegar áhyggjur um að konan ætlaði með börnin til Sýrlands. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Lundúnum er talið að um 40 konur og stúlkur frá Bretlandi hafi ferðast til Sýrlands síðasta árið. Margar þeirra reyna að komast til svæða þar sem Ríki íslams ræður ríkjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert