Vill að flóttamenn haldi sig frá Evrópu

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði flóttamönnum í dag að halda sig fyrir utan Evrópu. Hann hét því jafnframt að stöðva flóð flóttamanna inn í land hans en þúsundir manna koma til Ungverjalands á hverjum degi.

Orban lét orðin falla eftir neyðarfund með þjóðarleiðtogum aðildarríkja Evrópusambandsins í Brussel í dag. Síðustu daga hafa þúsundir flóttamanna komið til aðallestarstöðvar Búdapest í tilraun til þess að komast til Vestur-Evrópu.

Yfirvöld í Ungverjalandi hafa brugðist verst við flóttamannastraumnum og er til að mynda í byggingu 175 kílómetra löng girðing við landamærin með gaddavír. Þar að auki hafa stjórnmálamenn í Ungverjalandi varað við því aukinn straumur flóttamanna ógni kristnum gildum í Evrópu.  

Orban gagnrýndi aðra þjóðarleiðtoga í dag fyrir að samþykkja flóttamenn inn í lönd sín. Hann sagði að mannlegast og siðferðilegast væri að segja flóttamönnum að koma ekki til Evrópu. „Af hverju þurfa þeir að fara frá Tyrklandi til Evrópu. Tyrkland er öruggt land. Verið þar. Það er hættulegt að koma til Evrópu.“

Orban var einnig harðorður í garð Þjóðverja og kenndi þeim um þann mikla fjölda flóttamanna sem kominn er til Evrópu. Þjóðverjar hafa tekið inn langflesta flóttamenn á árinu meðal Evrópuríkja og lýsti því yfir að innflytjendalög yrðu milduð.

Orban hét því að loka landamærum Ungverjalands fyrir flóttamönnum fyrir 15. september.

Fjölmörgum hælisleitendum og flóttamönnum í Búdapest hefur verið neitað um að komast inn í Keleti lestarstöðina síðan á þriðjudaginn. Þar af leiðandi geta þeir ekki ferðast til Þýskalands þar sem þeim er lofað skjóli. Skipulagslausar flóttamannabúðir hafa risið í miðborg Búdapest þar sem margir koma til borgarinnar en fáir fara.

Umfjöllun Washington Post um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert