Bær í sóttkví vegna ebólu

Tæplega þúsund manna bær hefur verið settur í sóttkví í Sierra Leone vegna andláts 67 ára gamallar konu sem reyndist smituð af ebólu. 

Aðeins fimm dagar eru síðan því var lýst yfir að landið væri laust við ebólu en til þess að svo sé þurfa að líða sex vikur án þess að smit greinist í landinu.

Þorpið verður í sóttkví í þrjár vikur ef ekki verður tilkynnt um ný ebólusmit. Yfir 11 þúsund hafa látist úr ebólu eftir að faraldurinn braust út í Sierra Leone, Gíneu og Líberíu.

Samkvæmt frétt BBC höfðu stjórnvöld í Sierra Leone verið full bjartsýni þar sem ekkert smit hafði greinst í sex vikur í landinu. Sóttkvíin nú verður harðari en áður hefur verið þegar slík tilvik hafa komið upp. Til að mynda verður sett útgöngubann sem þýðir að fólk má ekki yfirgefa heimili sín. Hermenn og lögregla munu gæta þess að fólk fari eftir reglum sem settar hafa verið í bænum Sellakaffta en hann er í Kambia héraði skammt frá landamærum Gíneu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert