Óttast að fleiri flýi til Noregs

Landamærastöðin Storskog Boris Gleb - landamæri Rússlands og Noregs
Landamærastöðin Storskog Boris Gleb - landamæri Rússlands og Noregs AFP

Norska lögreglan undirbýr sig undir aukinn straum flóttamanna frá Sýrlandi til landsins frá Rússlandi eftir að fjölmiðlar víða um heim fjölluðu í vikunni um þessa flóttaleið.

„Það er engin ástæða til að ætla að þessu linni,“ segir Hans Møllebakken, lögreglustjóri í Kirkenes, í samtali við VG. Kirkenes, sem er í Finnmörk í norðausturhluta Noreg, er áfangastaður margra flóttamanna sem koma þaðan frá Rússlandi eftir að hafa flogið til Moskvu.

„Staðreyndin er sú að ef þú átt pening þá getur þú farið frá Damaskus til Storskog á tæpum tveimur sólarhringum. Þetta er hraðleið inn á Schengen svæðið,“ bætir hann við. Storskog er landamærastöðin milli Rússlands og Noregs.

Fjölmargir fréttamenn frá Noregi og Frakklandi fylgdust með á landamærunum í Storskog á miðvikudag í þeirri von að rekast þar á sýrlenska flóttamenn. Í síðustu viku var fjallað um þessa nýju flóttaleið í Sør-Varanger Avis og rataði fréttin í marga helstu fjölmiðla heims. 

Samkvæmt rússneskum lögum er óheimilt að fara fótgangandi yfir landamærin og þeir ökumenn sem flytja flóttamenn yfir landamærin eiga á hættu að vera kærðir fyrir smygl á fólki. Því fara margir hjólandi yfir landamærin.

Um fimm leytið á miðvikudag kom tvítugur sýrlenskur flóttamaður hjólandi yfir landamærin. Hann varð mjög undrandi þegar hópur fjölmiðlamanna beið hans. 

„Ég er frá Sýrlandi og hef verið í viku á leiðinni hingað, sagði maðurinn í viðtali við norska ríkisútvarpið áður en landamæraverðir fóru með hann. Maðurinn sagðist hafa komið landleiðina frá Tyrklandi og þaðan frá Rússlandi. Á eftir honum kom eldri maður og svo sex manna fjölskylda, þar af þrjú börn.

Á nokkrum dögum hafa rúmlega 20 sótt um hæli í Noregi við komuna til Storskog og eru það fleiri en allt árið í fyrra. Það sem af er ári hafa yfir 160 flóttamenn komið yfir landamærin í Storskog, flestir hjólandi. Flest reiðhjólanna voru keypt í þeim eina tilgangi að koma flóttafólkinu yfir landamærin. Að sögn <span>Møllebakken eru flest ný og í einhverjum tilvikum er ekki einu sinni búið að taka umbúðirnar almennilega af þeim.</span>

Møllebakken segir í samtali við NRK að lögreglan í Kirkenes hafi hvorki mannafla né getu til þess að taka á móti aukinni umferð flóttamanna. Engin aðstaða er á landamærunum og þurfa flóttamennirnir að sitja í litlum sófa og bíða þess að lögregla komi og fari með þá til Kirkenes þar sem þeir eru sendir með fyrstu flugvél til Ósló.

<a href="/frettir/erlent/2015/08/31/fara_bakdyramegin_til_noregs/" target="_blank">Fara „bakdyramegin“ til Noregs</a>

Lögreglan í Kirkenes óttast að fleiri sýrlenskir flóttamenn velji að …
Lögreglan í Kirkenes óttast að fleiri sýrlenskir flóttamenn velji að komast inn í Evrópu í gegnum landamæri Noregs og Rússlands í Storskog. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert