Sjö þúsund flóttamenn til Þýskalands í dag

Að minnsta kosti fimm hundruð manns lögðu af stað frá Búdapest til Austurríkis í dag, en fregnir hafa borist um að mörg hundruð hafi gengið út úr flóttamannabúðum í Ungverjalandi.

Í gær hófu tólf hundruð manns leiðangur sinn sömu leið, fótgangandi frá Búdapest til Austurríkis, en yfirvöld tóku nokkur þúsund manns til landamæranna í níutíu rútum. Einhver hluti fólksins er talinn koma frá flóttamannabúðunum við borgina Debrecen, en fréttastöðvar þar ytra hafa greint frá því að helmingur flóttafólks í búðunum hafi yfirgefið þær í dag.

6.500 manns höfðu farið yfir landamærin til Austurríkis klukkan hálf ellefu í morgun, samkvæmt upplýsingum frá austurríska innanríkisráðuneytinu. Þar taka rútur og lestir við þeim og flytja þá áleiðis til Vínar og Salzborgar, en flestir munu þeir fara þaðan til Þýskalands.

Þýska lögreglan segist búast við að allt að sjö þúsund flóttamenn muni koma til landsins í dag. Þegar hafa nokkur hundruð komið þangað með lestum til Munchen.

Hundruð flóttamanna ganga frá Búdapest áleiðis til Austurríkis.
Hundruð flóttamanna ganga frá Búdapest áleiðis til Austurríkis. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert