Hetja sem „stóð sig helvíti vel“

Chris Henkey er 63 ára og ætlar nú að setjast …
Chris Henkey er 63 ára og ætlar nú að setjast í helgan stein.

Flugstjórinn Chris Henkey, sem sat við stýri vélar British Airways sem varð alelda í Las Vegas í fyrradag, segist hættur að fljúga.

Henkey er sagður hetja fyrir að bregðast skjótt og rétt við og sýna yfirvegun er eldurinn kom upp í hreyfli vélarinnar. Vélin var að taka á loft er eldurinn kom upp. Hún var á leið frá Las Vegas til Gatwick. 

Um borð voru 157 farþegar og þrettán manna áhöfn. Allir komust heilir á húfi frá borði en nokkrir hlutu minniháttar meiðsli.

Henkey sagði í viðtali við NBC sjónvarpsstöðina að hann hefði ætlað að fljúga eitt flug í viðbót og setjast svo í helgan stein en hann er 63 ára. Hann sagði að núna væri ólíklegt að hann færi í þetta hinsta flug. „Það er nokkuð víst að ég er hættur að fljúga.“

Henkey hafði stefnt á að fljúga einu sinni í viðbót og fara svo til Barbados til dóttur sinnar en eyjurnar eru eftirlætis staður flugstjórans. 

Henkey er breskur og fá borginni Reading. Þrír reyndir flugmenn voru í flugstjórnarklefanum er eldurinn kom upp. Auk Henkeys, sem hefur verið flugmaður í áratugi voru þar menn sem höfðu 10-18 ára reynslu af flugi. 

Hann sagðist alls ekki sá eini sem kom að björgun farþeganna í fyrrinótt. „Þetta var ekki bara ég, þetta var öll áhöfnin.“

Henkey sagðist ekki tjá sig um það sem gerðist því málið væri enn í rannsókn. Hins vegar sagðist hann aldrei hafa upplifað annað eins neyðarástand. 

Það var Henkey sem hafði samband við flugturninn og lét vita af eldinum og að verið væri að rýma vélina á flugbrautinni. 

„Hann er hetja,“ sagði kærasta Henkeys í viðtalinu við NBC. „Hann stóð sig helvíti vel,“ sagði fyrirverandi eiginkona hans og barnsmóðir. 

Vélin alelda á flugvellinum í Las Vegas.
Vélin alelda á flugvellinum í Las Vegas. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert