Ríki íslams að búa til efnavopn

Írakskur skriðdreki í Al-Hayakel við jaðar Fallujah í átökum við …
Írakskur skriðdreki í Al-Hayakel við jaðar Fallujah í átökum við vígamenn Ríkis íslam. AFP

Vaxandi áhyggjur eru meðal yfirvalda í Bandaríkjunum að Ríki íslams framleiði efnavopn í Sýrlandi og Írak.

Bandarísk stjórnvöld segjast hafa orðið vör við að minnsta kosti fjögur dæmi um að Ríki íslams hafi notað vopn af sama meiði og sinnepsgas beggja vegna landamæra Íraks og Sýrlands. Efnin er að sögn yfirvalda notað í duftformi, og telja Bandaríkin að Ríki íslam hafi sveitir innan sinna raða sem sinna eingöngu því starfi að búa til efnavopn. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.

Talið er að eitrið sé notað til að fóðra hefðbundnar sprengjur og dreifist um allt þegar þær springa, með skelfilegum afleiðingum fyrir þá sem komast í snertingu við það.

Þrjár útskýringar eru taldar líklegar á því hvernig hryðjuverkasamtökin komu höndum yfir vopnin. Sú líklegasta er, að sögn njósnastofnana í Bandaríkjunum, er sú að samtökin framleiði efnin sjálf. Hinar tvær eru að samtökin hafi fundið eitrið, annaðhvort í Írak eða Sýrlandi.

Litlar líkur eru taldar á að efnin hafi fundist í Írak, því þá segja menn að Bandaríkjaher hefði fundið þau á undan samtökunum þegar herinn réðist inn í landið og á þeim áratug sem bandarískir hermenn fóru um landið. Þá er talið ólíklegt að efnavopnin hafi fundist í Sýrlandi, því sýrlenskum stjórnvöldum var gert að afhenda öll sín efnavopn árið 2013 og hótað loftárásum yrði ekki staðið við það. Þess vegna er líklegasta skýringin talin sú að samtökin framleiði efnin sjálf, en þau er að sögn ekki erfitt að framleiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka