Vill samstarf gegn Ríki íslams

Milljónir Sýrlendinga hafa flúið heimili sín vegna borgarastríðsins þar.
Milljónir Sýrlendinga hafa flúið heimili sín vegna borgarastríðsins þar. AFP

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hvetur ríki heims til þess að sameinast í baráttunni gegn skæruliðasamtökunum Ríki íslams en hann mun í dag ræða málefni Sýrlands við forseta Bandaríkjanna, Barack Obama.

Málefni Sýrlands verða rædd á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. 

Í frétt BBC kemur fram að Pútín ítrekar stuðnings Rússa við forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, en vesturveldin hafa lýst því yfir að hann verði að fara frá völdum. Samskipti Rússa og vesturveldanna hafa verið stirð undanfarin misseri vegna Úkraínu og stuðnings Rússa við uppreisnarmenn þar sem vilja sameinast Rússlandi.

BBC segir að fastlega megi gera ráð fyrir því að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, muni mýkja ummæli sín í garð Assads forseta Sýrlands í ræðu sinni á þingi SÞ. Hann muni segja í ræðu sinni á allsherjarþinginu að Assad geti verið tímabundið áfram við völd sem yfirmaður ríkisstjórnar sem muni starfa tímabundið.

Cameron, ásamt Obama og Francois Hollande, forseta Frakklands, hefur harðlega gagnrýnt Assad og krafist afsagnar hans sem skilyrði fyrir friðarsamningi við Sýrland. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert