Varar við eyðingu Mið-Austurlanda

Forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, segir að það skipti öllu máli fyrir Mið-Austurlönd í heild að loftárásir Rússa gegn bækistöðvum Ríkis íslams skili árangri. Loftárásir Rússa í Sýrlandi héldu áfram í dag, fimmta daginn í röð. 

Í viðtali við íranska ríkissjónvarpið sagði Assad að bandalag Rússa, Sýrlendinga, Íraka og Írana, yrði að skila árangri annars mundi allt svæðið verða auðnin ein. Hann segir að miklar líkur séu á að árásirnar muni skila árangri gegn skæruliðasamtökum en vesturveldin hafa haldið því fram að árásir Rússa beinist ekki gegn Ríki íslams heldur frekar gegn öllum þeim sem berjist gegn stjórn Assads.

Vesturveldin og ríki við Persaflóa hafa krafist afsagnar Assads en yfir 240 þúsund manns hafa látist frá því borgarastyrjöldin braust út fyrir meira en fjórum árum.  „Ef lausnin fælist í afsögn minni þá myndi ég ekki hika,“ sagði Assad í viðtalinu. 

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hvatti í dag Vladimír Pútín, forseta Rússlands, til þess að breyta um stefnu í Sýrlandi og viðurkenna að Assad verði að fara frá völdum.

Í viðtali við BBC í dag sagði Cameron að allt benti til þess að skotmörk Rússa væru fjarri þeim stöðum sem Ríki íslams réði yfir.

Bashar al-Assad forseti Sýrlands
Bashar al-Assad forseti Sýrlands AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert