Hinn látni var bróðir hjúkrunarfræðingsins

Jenifer segir aðra hjúkrunarfræðinga hafa haldið utan um hana á …
Jenifer segir aðra hjúkrunarfræðinga hafa haldið utan um hana á meðan hún grét á gólfi sjúkrahússins. Skjáskot af nbclosangeles.com

Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku í Laguna Niguel í Kaliforníu uppgötvaði sér til mikillar skelfingar að maður sem hún var að reyna að bjarga var bróðir hennar.

Ekið var á Cesar Andreas Medina þegar hann var á hjólabretti á föstudaginn var. Lögregluyfirvöld segja hann hafa verið í rétti þegar hann varð fyrir bílnum og að ökumaðurinn hafi ekið af vettvangi í kjölfarið.

Farið var með hinn 23 ára Medina á Mission sjúkrahúsið þar sem systir hans, Jenifer Medina, starfar sem hjúkrunarfræðingur. Í samtali við NBC LA sagði Jenifer að hún hefði verið að sinna nokkrum ólíkum sjúklingum í samstarfi við kollega sína þegar hún heyrði að maður í „slæmu ástandi“ hefði verið lagður inn á spítalann. Var hann í fyrstu skráður inn með nafninu „John Doe“. Jenifer var beðin um að bera kennsl á sjúklinginn með því að líta í veskið hans.

„Þegar ég sá veskið leit það kunnulega út og þegar við opnuðum það sá ég andlit bróðurs míns á persónuskilríkjunum,“ skrifar hún á GoFundMe síðu þar sem fjölskylda Mendes safnar styrktarfé til að auðvelda þeim að takast á við missinn.

„Ég vissi bara að ég vildi kveðja Andy í síðasta skipti eftir að þau hefðu lagað hann til,“ sagði hún. „Og segja honum hvað ég elska hann mikið.“

Ekki tókst að bjarga lífi bróðurs hennar og hann dó á spítalanum.

 Á laugardaginn var hinn 19 ára Andrew Michaels handtekinn en hann er talinn hafa ekið bílnum.

Jenifer segist ekki trúa að bróðir hennar sé farinn.

„Andy hafði svo mörg markmið fyrir framtíðina og var tekinn frá okkur öllum of snemma.“

Cesar Andreas Medina
Cesar Andreas Medina Ljósmynd/gofundme.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert