Þetta er hættulegasta kynlífsstellingin

mbl.is

Ein algengasta kynlífsstelling para af gagnstæðu kyni er líka sögð sú hættulegasta. 

Vísindamenn í Brasilíu hafa komist að því að þegar konan er ofan á karlmanni við samfarir valdi það flestum meiðslum. Vísindamennirnir studdust við gögn frá sjúkrahúsum við rannsókn sína.

Þeir telja að skýringin sé sú að konan stjórni þeim þunga sem lendi á getnaðarlimi karlmannsins með allri líkamsþyngd sinni í þessari vinsælu stellingu og að erfiðara sé því að rjúfa samfarirnar ef eitthvað sé að fara úrskeiðis.

Skaðinn sem konan verður fyrir er yfirleitt lítill og sársaukalaus en getur verið umtalsverður fyrir karlmanninn og skaðað liminn. 

Vísindamennirnir segja að hættuminnsta stellingin í svefnherberginu sé hin hefðbundna trúboðastelling. 

Rannsóknin náði til 44 karlmanna sem höfðu þurft að leita sér læknishjálpar á sjúkrahúsum í Campinas í Brasilíu vegna áverka á getnaðarlimi eftir samfarir. 

Í  helmingi tilvika lýstu sjúklingarnir því að hafa bókstaflega heyrt brothljóð og fundið sársauka. Flestir leituðu sér lækninga innan 5-6 klukkustunda frá slysinu.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru fyrst birtar í vísindatímaritinu Advances in Urology. Höfundar hennar segja að slík slys við samfarir séu ekki algeng en að „brotið typpi“ geti verið viðkvæmt mál og að því leiti ekki allir sem fyrir slíku verða til læknis.

Í hnotskurn var niðurstaðan þessi: „Rannsókn okkar styður þá kenningu að samfarir þar sem konan er ofan á sé hættulegasta kynlífsstellingin þegar kemur að áverkum á getnaðarlimi.“

Vísindamennirnir segja að þegar karlmaðurinn hafi betri stjórn á hreyfingunum geti hann afstýrt slysi með auðveldari hætti. 

Frétt Independent um rannsóknina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert