Stungin fyrir skoðanir sínar

Reker ræðir við kjósendur daginn fyrir árásina.
Reker ræðir við kjósendur daginn fyrir árásina. AFP

Á laugardaginn var borgarstjórnarframbjóðandinn Henriette Reker stungin í hálsinn af árásarmanni. Daginn eftir varð hún fyrsta konan til þess að vera kosin borgarstjóri Kölnar. Árásin, sem var framin á síðasta degi kosningabaráttunnar, hefur gert hina 58 ára gömlu Reker að ákveðinni táknmynd fyrir vaxandi óánægju innan ákveðinna hópa í Þýskalandi gagnvart flóttamönnum, að mati þýskra fjölmiðla.

Eins og áður hefur komið fram var Reker stungin þegar hún ræddi við kjós­end­ur við upp­lýs­inga­bás Krist­inna demó­krata í borg­inni. Árásarmaðurinn er talinn vera öfgahægrimaður en Reker hefur opinberlega lýst því yfir að hún sé hlynnt komu flóttamanna til borgarinnar. Hefur því verið gert ráð fyrir því að Reker hafi verið stungin fyrir skoðanir sínar. 

Að mati þýsku fréttastofunnar DPA mun nafn Reker nú koma upp í hvert skipti sem umræða fer fram um vaxandi yfirgang öfgafólks í landinu.

En á meðan Reker lá á sjúkrahúsinu var hún kjörin borgarstjóri og hlaut 52,6% atkvæða.

Reker er lögfræðingur að mennt sem hefur síðustu fimm árin m.a. stjórnað félagsmálum í ráðhúsinu í Köln. Eitt helsta verkefni Reker síðustu vikur og mánuði hefur verið að koma hælisleitendum frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum svæðum fyrir í borginni. Hún hefur komið þeim fyrir í íþróttahúsum, gömlum verslunarhúsum og öðrum stöðum. Reker hefur kallað eftir því að samfélagið bregðist við auknum straumi flóttamanna en búist er við því að fjöldi nýrra flóttamanna í landinu nái upp í milljón fyrir árslok.

„Köln er stækkandi borg með húsnæðisvanda. Mesta forgangsatriðið núna er að sjá til þess að enginn sofi undir brúm,“ sagði Reker í samtali við vikublaðið Die Zeit í mars.

Hún átti nýlega í orðaskaki við kardínálann Rainer Maria Woelki en hann hafði gagnrýnt hvernig borgin hefur brugðist við komu flóttamannanna. Reker svaraði Woelki með því að benda á að kirkjan hefði lítið sem ekkert hjálpað við að taka á móti fólkinu.

Reker hefur verið lýst sem iðnum og góðum stjórnanda en var þó frekar óþekkt á landsvísu áður en hún bauð sig fram í embætti borgarstjóra. Reker særðist alvarlega í árásinni en er þó á batavegi. Gert er ráð fyrir því að hún jafni sig að fullu.

Eftir árásina hélt Íhaldsdagblaðið Die Welt því fram að „önnur vídd“ hafi bæst við kosningarnar og spáðu því að gengi Reker myndi batna í kosningunum vegna „samúðar“ í kjölfar árásarinnar. Reker bauð sig fram sem óháður fram­bjóðandi en naut m.a. stuðnings Kristi­legra demó­krata, sem er flokkur Angelu Merkel. 

Hún sigraði marga andstæðinga sína en hennar stærsta ógn í kosningunum var frambjóðandi Jafnaðarmanna sem hlaut síðan aðeins 32% atkvæða.

Reker hefur kallað Köln „sterka borg“ og heitið miklum breytingum í rekstri borgarinnar. Hefur hún einnig lofað auknu gegnsæi. Hún hefur barist fyrir því að húsnæðisverð í borginni verði gert viðráðanlegt og bættum samgöngum.

Í kjölfar árásarinnar á laugardaginn sendi framboð Reker frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að hún myndi ná sér í fullu. Sendi hún frá sér þakkir fyrir allar þær kveðjur sem henni höfðu borist.

Fyrri fréttir mbl.is:

Stakk frambjóðanda í Köln

Kjörin borgarstjóri eftir líkamsárás

Stuðningsmenn Henriette Reker bregðast við úrslitum kosninganna á sunnudaginn.
Stuðningsmenn Henriette Reker bregðast við úrslitum kosninganna á sunnudaginn. AFP
Hér má sjá hnífinn sem árásarmaðurinn notaði.
Hér má sjá hnífinn sem árásarmaðurinn notaði. AFP
Kosningaplaggat Henriette Reker
Kosningaplaggat Henriette Reker AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert