Brotnaði í tvennt á flugi

AFP

Forseti Egyptalands Abdel Fattah al-Sisi hvetur fólk til þess að bíða niðurstöðu rannsóknar á því hvað olli flugslysinu í gær en 224 fórust í slysinu. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð og heldur því fram að liðmenn hreyfingarinnar hafi skotið flugvélina niður. Bæði egypsk og rússnesk stjórnvöld hafna því að Ríki íslams hafi burði til þess að skjóta niður farþegaþotu sem flýgur í 30 þúsund feta hæð líkt og rússneska þotan gerði þegar hún hrapaði. 

Allt bendir til þess að Airbus 321 þotan hafi brotnað í tvennt þegar hún var enn á flugi.

Sisi segir í viðtali við ríkisfréttastofu Egyptalands, MENA, að það eigi að láta sérfræðinga um að komast að niðurstöðu um það hvað hafi gerst þar sem um flókna og viðamikla tæknilega rannsókn er að ræða.

Alls hafa 163 lík fundist á leitarsvæðinu og hefur leitarsvæðið verið útvíkkað í 15 km svæði þar sem brak úr vélinni hefur fundist langt frá þeim stað þar sem stærsta brak Airbus 321-þotunnar fannst. 

Flugslysið er það alvarlegasta  í rússneskri flugsögu og ríkir mikil sorg meðal landsmanna. Fánar blakta við hálfa stöng við allar opinberar byggingar og öllu skemmtiefni hefur verið aflýst í ljósvakamiðlum.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert