Blóðgjafarbanni aflétt í skrefum

Banninu verður aflétt í skrefum.
Banninu verður aflétt í skrefum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Marisol Touraine, heilbrigðisráðherra Frakklands, tilkynnti í dag að frá og með næsta ári myndu stjórnvöld hefja að aflétta banni gegn blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna. „Blóðgjöf snýst um örlæti; borgaralega ábyrgð, og kynhneigð gjafans getur ekki komið til álita,“ sagði ráðherrann.

Aflétting bannsins var eitt af kosningaloforðum Francois Hollande í aðdraganda síðustu forsetakosninga en Touraine sagði að afléttingin myndi fara fram í skrefum.

Fyrst um sinn verður þeim samkynhneigðu karlmönnum heimilað að gefa blóð sem ekki hafa stundað kynlíf í 12 mánuði. Þeir sem hafa ekki haft samfarir við annan karlmann í fjóra mánuði, eða eru í einkvænissambandi, verður heimilt að gefa blóðvökva.

Sérfræðingar munu í kjölfarið meta hvort breytingarnar hafi aukna áhættu í för með sér, en ef svo reynist ekki vera verða reglurnar rýmkaðar frekar 2017.

Ýmis mannréttindasamtök hafa gagnrýnt biðtímann sem stjórnvöld leggja til en hann er við lýði í öðrum ríkjum, s.s. Ástralíu, Bretlandi, Japan og Svíþjóð. Samtökin segja hann fela í sér mismunun, þar sem ekki er gerð sama krafa til gagnkynhneigðra.

Í Bandaríkjunum hafa yfirvöld lagt til að banni gegn blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna verði aflétt, en með því skilyrði að 12 mánuðir séu liðnir frá því að gjafinn stundaði kynlíf með öðrum karlmanni. Samkvæmt Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna eru samkynhneigðir karlmenn líklegri til þess að smitast af HIV en aðrir.

Málið er viðkvæmt í Frakklandi, þar sem hundruð létust á 9. áratug síðustu aldar eftir að hafa smitast af HIV við blóðgjöf. Þó nokkur fjöldi opinberra starfsmanna hlaut dóma vegna málsins en stór hluti smitaða blóðsins var fluttur úr landi, sem varð þess valdandi að hundruð til viðbótar létust.

Laurent Fabius utanríkisráðherra, sem þá var forsætisráðherra, var hreinsaður af ákærum vegna hneykslisins en heilbrigðisráðherrann í ríkisstjórn hans hlaut dóm árið 1999.

Allt blóð sem fer um blóðgjafakerfið hefur verið skimað frá 1985.

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í apríl á þessu ári að stjórnvöldum væri heimilt að banna blóðgjafir samkynhneigðra karlmanna ef þau gætu sýnt fram á að það væri besta leiðin til að takmarka áhættu á HIV-smiti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert