Bannar flug til Egyptalands

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur bannað allt flug frá Rússlandi til Egyptalands í kjölfar þess að rússnesk farþegaflugvél brotlenti á Sínaí-skaganum í lok síðasta mánaðar. Tilkynnt var um ákvörðun forsetans í dag. Pútín fyrirskipaði einnig að rússneskir ferðamenn á svæðinu yrðu aðstoðaðir við að komast til síns heima.

Fram kemur í frétt AFP að ákvörðun Pútíns væri tekin á grundvelli ráðlegginga frá rússnesku leyniþjónustunni FSB. Það hafi verið staðfest af talsmanni stjórnvalda í Moskvu, Dimitrí Peskov. Áður hafa bæði leyniþjónustu Bretlands og Bandaríkjanna lýst því yfir að flugvélinni hafi að öllum líkindum verið grandað með sprengju um borð. Pútín hafði áður vísað því á bug og lagt áherslu á að gera sem minnst úr atvikinu.

Evrópsk flugfélög hafa unnið að því að flytja farþega frá borginni Sharm el-Sheikh á Sínaí-skaga í Egyptalandi til síns heima í kjölfar þess að flugvélin fórst. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir borgina á ári hverju. Færri flugvélar hafa þó komist frá borginni en hafa viljað þar sem egypsk yfirvöld hafa ekki heimilað öllum flugvélum að taka á loft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert