Hillary: Ég myndi sigra Bill

Hillary og Bill Clinton með Chelsea dóttur sinni.
Hillary og Bill Clinton með Chelsea dóttur sinni. AFP

Hillary Clinton,  frambjóðandi í forvali Demókrata fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ár sagði á dögunum að hún myndi sigra eiginmann sinn, Bill Clinton í forsetakosningunum myndi hann ákveða að bjóða sig fram að nýju. Eins og kunnugt er var Bill Clinton forseti Bandaríkjanna árin 1993 til 2001.

Hillary Clinton, sem er fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var gestur þáttastjórnandans Jimmy Kimmel á dögunum. Þar sagði hún að ef Bill Clinton gæti það lagalega, myndi hann bjóða sig fram aftur. Hann myndi samt ekki sigra eiginkonuna.

„Mér finnst hann vera frábær frambjóðandi. Það væri æðislegt ef hann gæti boðið sig fram aftur. En stjórnarskráin segir að hann geti það ekki,“ sagði Hillary. „Hann myndi bjóða sig fram aftur,“ bætti hún við. „Ekki segja neinum, en ef hann gæti það, myndi hann gera það.“

Aðspurð hvort hún myndi sigra eiginmanninn í kosningum svaraði hún því einfaldlega játandi.

Kimmel spurði einnig hvað Bill yrði kallaður myndi Hillary sigra kosningarnar en hún yrði þá fyrsta konan til að gegna titlinum og Bill fyrsti karlkyns maki forseta. Forsetafrúrnar eru yfirleitt kallaðar „First lady“ á ensku eða „Fyrsta frú. Hillary var ekki viss um hvað Bill yrði kallaður yrði hún kosin forseti Bandaríkjanna. „Fyrsti gaur, fyrsti félagi, fyrsti herramaður? Ég er ekki viss,“ svaraði hún.

Hér að neðan má sjá spjallið.

Frétt Sky News. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka