Hætta á „ómannúðlegri meðferð“ á Breivik

Fjöldamorðinginn Anders Breivik við réttarhöldin árið 2012.
Fjöldamorðinginn Anders Breivik við réttarhöldin árið 2012. AFP

Einangrunarvist hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik á í hættu að verða að „ómannúðlegri meðferð“ samkvæmt skýrslu umboðsmanns norska þingsins sem gefin var út í dag.

Hægri-öfgamaðurinn Breivik myrti 77 manns, mestmegnis unglinga, í júlí 2011 og er honum haldið í sérstakri öryggisálmu Skien fangelsisins þar sem hann hefur lítil sem engin samskipti við umheiminn.

Breivik hefur líkt fangelsisvistinni við pyntingar og hefur höfðað mál á hendur norska ríkinu. Áætlað er að réttarhöld hefjist í mars. Breivik hefur ítrekað hótað því að fara í hungurverkfall.

Aage Thor Falkanger, umboðsmaður norska þingsins, heimsótti fangelsið til að kynna sér aðstæður. Sagði hann vistarverur á við þær sem Breivik dvelst í setja frelsi fanga til hreyfingar strangar skorður auk þess sem þær takmarki verulega möguleika til að eiga samskipti við annað fólk.

„Þetta og sú staðreynd að í raunveruleikanum er afar takmarkaður fjöldi fanga í þessari öryggisálmu þýðir að þessar aðstæður fela í sér aukna hættu á ómannúðlegri meðferð,“ segir Falkanger.

Í skýrslunni kallar hann eftir auknum samskiptum milli fanga og fangavarða til að „minnka hættu á tjóni“ af völdum einangrunar sem og að farið væri yfir möguleikann á upptöku „minna ágengari öryggisaðferða en handjárnum“

NRK segir fangelsismálayfirvöld þegar hafa tekið upp breytta starfshætti að einhverju leiti, til að draga úr einangrun Breivik, t.a.m. með því að leyfa honum að taka þátt ýmsum athöfnum með vörðum í einn klukkutíma í viku.

Breivik var dæmdur í 21 árs fangelsi árið 2012 en fangelsisvistin getur verið lengd svo lengi sem hann er talinn ógn við þjóðfélagið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert