Fjölmargir látnir í París

Mikil skelfing ríkir meðal fólks í París þar sem nokkrar …
Mikil skelfing ríkir meðal fólks í París þar sem nokkrar árásir voru gerðar í kvöld AFP

Fjölmargir eru látnir eftir skotárásir og sprengjutilræði í París í kvöld. Skotárásir voru gerðar á að minnsta kosti tveimur eða þremur stöðum og eins sprungu sprengjur skammt frá þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France, í úthverfi Parísar, þar sem landsleikur Frakklands og Þýskalands fór fram.

Frá Petit Cambodge veitingastaðnum þar sem ein árásin var gerð …
Frá Petit Cambodge veitingastaðnum þar sem ein árásin var gerð í kvöld. AFP

Forseti Frakklands, François Hollande, var á leiknum en yfirgaf leikvanginn í lögreglufylgd til þess að taka þátt í neyðarfundi í innanríkisráðuneytinu.

Nýjustu fregnir herma að fimmtán hafi látist í gíslatöku í Bataclan-tónleikasalnum og þrír í sprengjutilræðunum. Ekki hefur komið fram hversu margir eru látnir allt í allt en gíslatakan er enn í gangi í Bataclan.

Frá tíunda hverfi í kvöld
Frá tíunda hverfi í kvöld AFP

Le Parisien segir að þrjátíu séu látnir í árásunum. Skotárásirnar virðast allar vera á svipuðum slóðum í París, í tíunda og ellefta hverfi, og einkum beint gegn fólki á veitingahúsum og börum.

Guardian hefur eftir lögreglu að vitað sé að 26 séu látnir og að gíslatakan sé enn í gangi í Bataclan-salnum.

Franska sjónvarpsstöðin BFMTV segir að um 100 gíslar hafi verið teknir í Bataclan-tónleikasalnum í ellefta hverfi. Samkvæmt frétt BFMTV var um einn klukkutími liðinn af tónleikum bandarísku rokksveitarinnar Eagles of Death Metal þegar árásin hófst þar. Eitthvað er á reiki um fjölda gesta, sumir fjölmiðlar tala um að gestirnir hafi verið um 60 talsins.

Um 40 látnir hið minnsta

Franski blaðamaðurinn Erwan Desplanques hefur eftir vini sínum sem náði að flýja út úr Bataclan-salnum að árásarmennirnir hafi verið fimm eða sex talsins og þeir hafi minnst á Sýrland á meðan árásinni stóð.

Uppfært klukkan 22:48

AP fréttastofan hefur eftir lögreglunni að 11 hafi verið skotnir til bana á veitingastað í tíunda hverfi og 35 séu látnir í Bataclan þar sem gíslatakan stendur enn yfir. Að sögn lögreglu eru um 100 gíslar þar í haldi. Eins létust þrír í sprengjutilræði skammt frá Stade de France-leikvanginum.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sendir samúðarkveðjur til frönsku þjóðarinnar og segir í færslu á Twitter að Bretar muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að styðja við bakið á Frökkum.

Fólk beðið um að vera ekki á ferli í París

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir árásina ekki beinast gegn Frökkum einum heldur allri heimsbyggðinni. Hann er nú að flytja ávarp í Hvíta húsinu og boðar samstarf milli Bandaríkjamanna og Frakka við að hafa uppi á þeim sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum sem hafa verið framin í París í kvöld.

Ríkisstjórn Frakklands situr á neyðarfundi og hafa borgaryfirvöld í París beðið íbúa borgarinnar að halda sig innandyra.

Lögregla og sjúkralið að flytja slasaða á brott
Lögregla og sjúkralið að flytja slasaða á brott AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert