Skutu morðingjann samtímis

Nemandi og foreldri yfirgefa grunnskólann í Trollhättan eftir árásina.
Nemandi og foreldri yfirgefa grunnskólann í Trollhättan eftir árásina. AFP

Tveir lögregluþjónar skutu Anton Lundin Pettersson til bana aðeins fáeinum augnablikum eftir að hann stakk nemanda og kennara  til bana í grunnskóla í Trollhättan í Svíþjóð þann 22. október síðastliðinn. Tveir aðrir slösuðust í árás mannsins sem var 21 árs gamall og réðst á hörundsdökkt fólk í skólanum með sverði.

Andlát mannsins var rannsakað eins og starfsreglur lögreglu gera ráð fyrir en saksóknari lokaði rannsókninni eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að lögregluþjónarnir hefðu borið sig rétt að.

Í dag birti Aftonbladet gögn úr rannsókninni sem gefa skýrari mynd af atburðarrásinni en áður hafði verið lýst í fjölmiðlum. Í þeim lýsa lögregluþjónarnir tveir, sem voru fyrstir á staðinn, hvernig þeir hittu morðingjann í stiga upp á aðra hæð skólabyggingarinnar. Þá höfðu þeir þegar komið að tveimur fórnarlömbunum í blóði sínu sem ljóst var að þeir gætu ekki hjálpað.

„Við æpum „lögreglan“. Árásarmaðurinn snýr sér við og gengur í áttina að okkur,“ sagði annar lögreglumaðurinn við rannsóknina. „Hann var með sverð í annarri hendi. Hann gekk hratt í átt að okkur.“

Lögregluþjónarnir hleyptu af á sama tíma og hittu Pettersson í magann. Þeir sögðu ástandið hafa verið óraunverulegt og að þeir hefðu neyðst til að handjárna hann þar sem hann streittist á móti þegar þeir reyndu að stöðva blæðinguna.

Þeir drógu af honum grímuna og spurðu hann að nafni. Hann svaraði samstundis.

„Hann var nýklipptur. Hann hafði rakað höfuð sitt á báðum hliðum. Hann var íklæddur nýjum stígvélum og hjálmi. Hann var að hlusta á háværa tónlist, mjög þunga rokktónlist. Hann var með augnfarða. Hann leit út eins og pönkari,“ sagði annar lögregluþjónanna.

„Hann leit nákvæmlega eins út og þessar kvikmyndir frá skotárásum í Bandaríkjunum sem við höfum séð, sami stíll. Það er svo fáránlegt.“

Þegar lögregluþjónarnir voru spurðir að því hvort þeir hefðu getað komist hjá því að skjóta Petterson svöruðu þeir báðir neitandi.

„Ef við hefðum ekki gert það hefðum við slasast sjálfir. (....) Og ég trúi að... hann hafi klætt sig upp fyrir daginn. Hann hafði klætt sig upp og farðað sig, hann var með glimmer í hárinu. Þetta var stóri dagurinn hans og ég held ekki að hann hefði leyft okkur að stoppa... Ef hann hefði haft tækifærið til þess hefði hann viljað halda áfram,“ sagði annar þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert