Gríðarlegt umhverfisslys í Brasilíu

Gríðarlegur vatnselgur streymdi fram eftir að stíflur brustu við járnnámu …
Gríðarlegur vatnselgur streymdi fram eftir að stíflur brustu við járnnámu í Brasilíu. AFP

Á þriðja hundrað þúsunda manna er án drykkjarvatns eftir að tvær stíflur við járnnámu í suðausturhluta Brasilíu brustu fyrr í þessum mánuði. Úrgangur frá námunni sem hefur streymt yfir mikið landflæmi er talið geta spillt vistkerfum í fjölda ára. Forseti landsins líkir slysinu við olíulekann í Mexíkóflóa.

Að minnsta kosti níu manns fórust þegar stíflurnar tvær brustu 5. nóvember og enn er nítján manna saknað. Þá þurftu um fimm hundruð manns að yfirgefa heimili sín vegna vatnselgsins. Vatnið hefur teygt sig yfir um 500 kílómetra svæði en talið er að um 60 milljón rúmmetrar, jafngildi um 25.000 ólympískra sundlauga, hafi flætt úr lónum stíflnanna, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Vísindamenn telja að setið sem hefur borist með vatninu geti innihaldið efni sem notuð eru við námuvinnsluna til að hreinsa járngrýtið. Þau gætu breytt árfarvegum þegar þau harðna, dregið úr styrk súrefnis í vatninu og skaðað frjósemi árbakka og ræktarlands sem vatnið flæddi yfir.

Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, líkir tjóninu við olíulekann frá borpalli breska olíufyrirtækisins BP í Mexíkóflóa árið 2010 og umhverfisráðherrann Izabella Teixeira kallar óhappið „umhverfishamfarir“.

Náman er í eigu fyrirtækjanna Vale SA og BHP Bililton. Þau hafa ítrekað lýst því yfir að setið sé ekki eitrað. Líffræðingar og umhverfissérfræðingar eru hins vegar á öðru máli. Sveitarstjórnir hafa þannig skipað fólki sem var bjargað úr flóðinu að þrífa sig frá toppi til táar og losa sig við föt sem komust í snertingu við leðjuna.

„Það er þegar ljóst að dýralíf er að drepast af völdum leðjunnar. Að segja að leðjan sé ekki hættuleg heilsu er ofeinföldun,“ segir Klemens Lascheskfi, prófessor í jarðvísindum við Alríkisháskólann í Minais Gerais.

Frétt Reuters af slysinu

Fyrri fréttir mbl.is:

17 látnir eftir að stíflur brustu

25 manns enn saknað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert