BBC sker niður um 150 milljónir punda

Höfuðstöðvar breska ríkisútvarpsins BBC.
Höfuðstöðvar breska ríkisútvarpsins BBC. AFP

Gert er ráð fyrir 150 milljón punda niðurskurði á starfsemi breska ríkisútvarpsins BBC í fjárhagsáætlun sem það kynnti í dag. Niðurskurðurinn mun líklega hafa mestar afleiðingar fyrir íþróttaútsendingar ríkisfjölmiðilsins þó að hann nái einnig til fréttasviðs þess.

Um 50 milljónir punda eiga að sparast með því að straumlínulaga reksturinn, fækka deildum og yfirstjórnendum. Þær aðgerðir eru liður í áformum sem áður hafa verið kynnt en þær gera ráð fyrir að starfsfólki stofnunarinnar fækki um þúsund fyrir árið 2017.

Íþróttadeild BBC mun taka á sig 35 milljón punda niðurskurð en gert er ráð fyrir að það þýði að hætt verði að senda út frá ýmsum íþróttaviðburðum sem ríkisútvarpið hefur áður sinnt. Það hefur þegar hætt útsendingum frá Opna mótinu í golfi sem BBC hefur staðið fyrir um áratugaskeið.

Leikið efni á að sleppa við niðurskurðinn og fréttadeildinni verður hlíft að einhverju marki. Hún þarf þó að skera niður starfsemi sína um fimm milljónir punda.

Kynnir frekari niðurskurð á næsta ári

Útvarpsgjald stendur undir rekstri BBC en öll heimili sem eru með sjónvarp á Bretlandi þurfa að greiða það. Árlega skilar það um 3,7 milljörðum punda. Breytingar á fjölmiðlanotkun almennings hafa hins vegar orðið til þess að sífellt færri eiga sjónvarp og greiða útvarpsgjaldið. Því þarf BBC enn að skera niður starfsemi sína um 550 milljónir punda. Áætlanir um þann niðurskurð verða kynntar snemma á næsta ári.

„Þær munu líklega fela í sér víðtækar breytingar á þjónustu og uppbyggingu þess hvernig BBC starfar og stendur undir markmiði sínu um að upplýsa, fræða og skemmta,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert