1300 hafa fallið í loftárásum Rússa

Frá loftrárásum Rússa í Homs í síðasta mánuði.
Frá loftrárásum Rússa í Homs í síðasta mánuði. AFP

Rúmlega 1.300 manns hafa látið lífið í loftárásum Rússa í Sýrlandi síðan þær hófust 30. september. Meira en helmingur þeirra látnu voru stríðsmenn.

Mannréttindasamtökin The Syrian Observatory for Human Rights, greindu frá þessu í dag. Í tilkynningu þeirra kemur fram að flestir þeirra látnu hafi verið meðlimir Ríkis íslams eða meðlimir annarra hryðjuverkasamtaka.

381 meðlimur Ríkis íslams hefur látið lífið í árásum Rússa og 547 meðlimir hryðjuverkasamtakanna Al-Nusra front sem starfar með Al-Qaeda. Þar að auki hafa 403 almennir borgarar látið lífið, þar af 97 börn.

Ef marka má tölur samtakanna hefur orðið mikil aukning í dauðsföllum vegna árásanna síðustu vikur. Í skýrslu frá 29. október kom fram að tæplega 600 hefðu látið lífið í árásunum.

Rússar segja að sitt helsta skotmark í Sýrlandi sé Ríkis íslams og aðrir hryðjuverkamenn. Uppreisnarmenn og bakhjarlar þeirra saka ráðamenn í Moskvu hinsvegar um að ráðast frekar á hófsama uppreisnarmenn en hryðjuverkamenn.

Fjölmörg læknasamtök hafa einnig sakað Rússa um að hafa varpað sprengjum á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús í Sýrlandi.

Með loftárásum í Sýrlandi feta Rússar í fótspor Bandaríkjanna sem hafa leitt bandalag þjóða gegn Ríkis íslams í Sýrlandi. Hefur það bandalag stundað loftárásir í landinu síðan í september á síðasta ári.

Í þeim árásum hafa að minnsta kosti 3.649 látið lífið, 6% þeirra almennir borgarar. Í skýrslu TSOHR síðan í lok síðasta mánaðar kom fram að loftárásir bandalagsins hafi drepið 3276 meðlimi Ríkis íslams, 147 meðlimi Al-Nusra og annarra hryðjuverkahópa og 226 almenna borgara.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert