Fjölda gísla bjargað í Malí

Sérsveitir Bandaríkjahers hafa tekið þátt í aðgerðum við að bjarga fólki sem tekið var í gíslingu á lúxushóteli Radisson Blu í Bamako, höfuðborg Malí, í dag. Þetta hefur AFP fréttaveitan eftir talsmanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins.

Fram kemur í fréttinni að hugsnalegt sé að bandarískir ríkisborgarar séu í hópnum. Haft er eftir Michelle Baldanza ofursta að bandarískir hermenn hafi flutt óbreytta borgara í öruggt skjól á meðan hersveitir Malí hafi ráðist gegn vígamönnunum á hótelinu. Samtals hafi 125 gestir og 13 starfsmenn hótelsins verið á meðal gíslanna.

Haft er eftir John Kirby, talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins, að sendiráð Bandaríkjanna í Malí vinni að því að staðfesta hvort bandarískir ríkisborgarar hafi verið á meðal gíslanna. Talið er að hryðjuverkamenn úr röðum íslamista hafi verið að verki.

Talið er að vígamennirnir hafi komið að hótelinu um klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma á bifreið sem merkt var með diplómatískri númeraplötu. Þrír óbreyttir borgarar létu lífið. Óljóst er hversu margir vígamennirnir voru. Sjónarvottar segja að þeir hafi verið um tólf talsins en öryggisverðir að þeir hafi einungis verið 2-3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert