Franskir öfgamenn handteknir á Kýpur

Þungvopnaðir franskir hermenn standa nú vörð í París.
Þungvopnaðir franskir hermenn standa nú vörð í París. AFP

Kýpur mun á næstunni vísa sex einstaklingum, sem allir eru með ríkisfang í Frakklandi, úr landi en mennirnir voru handteknir á flugvelli þar í landi. Eru þeir grunaðir um að hafa tengsl við íslamska öfgamenn.

Fréttaveita AFP greinir frá því að mennirnir hafi verið handteknir við komuna til landsins en þeir höfðu ferðast til Kýpur frá Basel í Sviss. Fimm þeirra eru af tyrkneskum uppruna og einn frá Alsír. Allir eru þeir franskir ríkisborgarar.

Lögreglan á Kýpur segir mennina vera á aldrinum 25 til 33 ára.

Dómsmálaráðherra landsins segir minnst þrjá þeirra hafa „sterk tengsl við hryðjuverkahópa,“ en þeir vöktu strax athygli lögreglumanna við komuna til landsins.

„Þeir vöktu strax grunsemdir [við komuna]. Við höfum upplýsingar um sterk tengsl þeirra við hryðjuverkahópa og hefur Interpol staðfest það við okkur að þrír þeirra eru tengdir hryðjuverkahópum,“ hefur fréttaveita AFP eftir dómsmálaráðherranum.

Þá eru hinir þrír grunaðir um sams konar tengsl en það hefur þó ekki verið staðfest til þessa. Verður mönnunum vísað úr landi vegna öryggishagsmuna, en mjög hefur verið hert á öryggiseftirliti á Kýpur í kjölfar hryðjuverkanna í París.

Hugsanlegt er að mennirnir hafi ætlað sér að ferðast áfram til Sýrlands. Það hefur hins vegar ekki fengist staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert