Hryðjuverkamenn fyrir dóm í Svíþjóð

Sænskir lögreglumenn eru vel vopnum búnir.
Sænskir lögreglumenn eru vel vopnum búnir. AFP

Tveir karlmenn hafa verið ákærðir í Svíþjóð fyrir að hafa tekið þátt í tveimur aftökum í Sýrlandi árið 2013. Fréttaveita AFP greinir frá því að mennirnir séu báðir tengdir vígasamtökum Ríki íslams.

„Mennirnir tveir sem ákærðir hafa verið í Gautaborg eru sænskir ríkisborgarar og fóru þeir til Sýrlands til þess að taka þar þátt í bardögum,“ segir Agnetha Hilding Qvarnström yfirsaksóknari í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla og fréttaveita AFP vitnar til, en réttarhöldin eru þau fyrstu sinnar tegundar í Svíþjóð. 

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að til sé myndbandsupptaka af aftökunum og á henni má meðal annars sjá hina ákærðu „lýsa yfir gleði sinni“ með drápin.

Annar mannanna var handtekinn í júlí síðastliðnum og hefur hann verið í haldi lögreglu síðan þá. Hinn var handtekinn á sama tíma en sleppt að loknum yfirheyrslum. Var sá látinn sæta farbanni. Mennirnir eru sagðir vera 32 ára og 30 ára.

„Markmið glæpsins var að skaða sýrlenska ríkið og hræða íbúa landsins,“ segir einnig í yfirlýsingu yfirsaksóknarans en réttarhöldin hefjast næstkomandi fimmtudag. Farið hefur verið fram á aukna öryggisgæslu í og við dómshúsið á þeim tíma sem réttarhöldin fara fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert