Macri kjörinn forseti Argentínu

Mauricio Macri fagnar sigrinum á sunnudaginn.
Mauricio Macri fagnar sigrinum á sunnudaginn. AFP

Mauricio Macri er nýkjörinn forseti Argentínu eftir að kosið var í landinu í gær. Nú þegar næstum því öll atkvæði hafa verið talin er Macri með 51,5% atkvæða en andstæðingur hans Daniel Scioli með 48,5%.

Macri dansaði á sviði kosningamiðstöðvar sinnar í Buenos Aires þegar úrslitin voru ljós. Þakkaði hann starfsfólki sínu fyrir stuðninginn.

Með sigri Macri, sem er í dag borgarstjóri Buenos Aires, lýkur 12 ára valdatíð Peronistaflokksins í Argentínu.

„Í dag er sögulegur dagur,“ sagði Macri þegar hann ávarpi mörg þúsund stuðningsmenn sína í höfuðborginni. Þegar kjörstaðir voru opnaðir í gær var Macri með ágætis forskot miðað við skoðanakannanir en hann hafði lofað því að bæta efnahag landsins og berjast við glæpi og spillingu.

Faðir Macris er einn ríkasti maður Argentínu og hafði nýkjörni forsetinn lengi verið áberandi í viðskiptalífinu áður en hann fór út í pólitík. Árið 1991 var honum rænt og haldið í tólf daga af spilltum lögreglumönnum sem kröfðust lausnargjalds. Fjölskylda hans borgaði lögreglumönnunum og var Macri sleppt. Fjórum árum seinna varð hann forseti knattspyrnufélagsins Boca Juniors.

Í október var búist við því að Scioli myndi vinna kosningarnar en hann er náinn félagi núverandi forseta Argentínu, Cristinu Fernandez de Kirchner.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert