Maður ákærður vegna árásanna í París

Þungvopnaðir hermenn standa vakt í Brussel.
Þungvopnaðir hermenn standa vakt í Brussel. AFP

Lögreglan í Belgíu hefur ákært mann vegna hryðjuverkanna sem framin voru í París hinn 13. nóvember síðastliðinn. Ekki hefur verið greint frá nafni mannsins en hann er sagður vera einn þeirra 16 einstaklinga sem handteknir voru í aðgerðum lögreglu í gær.

Breska ríkisútvarpið (BBC) greinir frá því að af þeim 16 sem handteknir voru á sunnudag er búið að sleppa öllum úr haldi nema hinum ákærða.

Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, segir enn alvarlega hættu yfirvofandi í landinu og verður því hæsta viðbúnaðarstig áfram í gildi í Brussel, en þar má sjá þungvopnaða hermenn á götum úti.

Þrátt fyrir þessa miklu öryggisgæslu hafa stjórnvöld ákveðið að opna aftur skóla og jarðlestarkerfi borgarinnar næstkomandi miðvikudag.

Maðurinn sem nú hefur verið ákærður er sá fjórði sem ákærður er fyrir aðild að hryðjuverkunum í París og aðkomu að starfsemi hryðjuverkasamtaka. Tveir þeirra hafa verið nafngreindir, þ.e. hinn 27 ára gamli Mohammed Amri og hinn tvítugi Hamza Attou, en ekki hefur verið greint frá nafni þriðja mannsins.

Þá greinir fréttaveita AFP frá því að í suðurhluta Parísar hafi fundist belti sem sagt er líkjast sprengjubelti sjálfsvígssprengjumanns, en hlutur þessi fannst í ruslatunnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert