Pútín mættur til Teheran

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, kom til Teheran, höfuðborgar Írans, í dag. Þetta er fyrsta heimsókn forsetans til Írans í átta ár en hann mun þar ræða um stríðið í Sýrlandi. Bæði Rússar og Íranar styðja forseta Sýrlands í stríðinu sem hefur staðið yfir í rúmlega fjögur ár.

Pútín lenti í Teheran um klukkan 13:15 að staðartíma eða 9:45 að íslenskum tíma í morgun. Hann mun m.a. ræða við Ayatollah Ali Khamenei og forsetann Hassan Rouhani. Heimsóknin mun aðeins standa yfir í dag en Pútin tekur einnig þátt í ráðstefnu þeirra landa sem flytja út gas.

Í lok september hófu Rússar loftárásir í Sýrlandi til styrktar stjórnarhernum og hafa alltaf haldið því fram að árásunum sé beint að Ríki íslams. Árásunum hefur fjölgað gífurlega síðan hryðjuverkamenn Ríkis íslams sprengdu upp rússneska farþegaþotu í síðasta mánuði þar sem 224 létu lífið. Á föstudaginn var sagt frá því að rúmlega 1.300 hefðu látið lífið í árásum Rússa í Sýrlandi, flestir þeirra vígamenn Ríkis íslams.

Stjórnvöld í Teheran hafa stutt við forseta Sýrlands með fjárframlögum og hernaðaraðstoð.

Vladimir Putin forseti Rússlands.
Vladimir Putin forseti Rússlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert