Taka ekki á móti einstæðum körlum

Aðeins verður tekið á móti fjölskyldum, börnum og einstæðum mæðrum …
Aðeins verður tekið á móti fjölskyldum, börnum og einstæðum mæðrum til Kanada af öryggisástæðum, að því er yfirvöld segja. AFP

Kanada mun aðeins taka á móti fjölskyldum, einstæðum konum eða börnum sem koma sem flóttamenn frá Sýrlandi. Ekki verður aftur á móti tekið á móti einstæðum karlmönnum og vísa yfirvöld til öryggishættu. Áform kanadískra stjórnvalda um að taka á móti 25 þúsund flóttamönnum fyrir árslok hafa eftir árásirnar í Frakklandi verið gagnrýndar og er þessari aðferðafræði ætlað að bregðast við því.

Sendiherra Kanada í Jórdan hefur staðfest að flóttamönnum frá búðum í Jórdan, Líbanon og Tyrklandi verði flogið til Kanada frá og með 1. desember næstkomandi. Mun kostnaður vegna komu flóttamannanna nema um 1,2 milljörðum Kanadadölum.

Faisal Alazem, hjá sýrlenska kanadíska ráðinu í Kanada sem hefur verið í samskiptum við stjórnvöld, sagði í samtali við kanadíska útvarpið að niðurstaðan væri málamiðlun. „Þetta er ekki fullkomnar aðstæður til að vernda varnarlaust fólk, konur, börn og karla líka. En ég tel að það sem gerðist í París hafi verulega breytt kraftinum og viðhorfi almennings,“ sagði hann.

Justin Trudeau var í síðasta mánuði kosinn forsætisráðherra Kanada fyrir frjálslynda. Meðal loforða hans var að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi og hefur hann látið nokkur ráðuneyti vinna að því verkefni undanfarnar vikur.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Photo AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert