Þjóðarsorg í Malí vegna árásar

Hermaður fylgist með hreinsunarstarfi fyrir utan hótelið í morgun.
Hermaður fylgist með hreinsunarstarfi fyrir utan hótelið í morgun. AFP

Þriggja daga þjóðarsorg hófst í Malí í dag vegna árásar og gíslatöku árásarmanna á hóteli í höfuðborg landsins á föstudaginn. Að minnsta kosti 19 létu lífið.

Hermenn gerðu áhlaup á Radisson Blu-hótelið til þess að frelsa gesti hótelsins og starfsfólk sem haldið var í gíslingu. Tveir árásarmenn létu lífið.

Þrír mismunandi hópar íslamista hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en rannsakendur eiga eftir að greina frá fjölda og þjóðerni árásarmannanna.

Heimildarmaður BBC í Malí segir þó vitað að mennirnir tveir sem voru skotnir til bana hafi talað ensku. Heimildarmaður AFP heldur því jafnframt fram að mennirnir hafi ekki verið frá Malí.

Eins og fyrr segir voru fórnarlömb árásarinnar nítján talsins; sex Malímenn, sex Rússar, þrír Kínverjar, tveir Belgar, einn Bandaríkjamaður og einn Ísraeli.

Tvenn aðildarsamtök al-Qaeda í Afríku hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Talsmaður hryðjuverksamtakanna al-Murabitoun sagði í samtali við al-Jazeera að árásarmennirnir hefðu verið Malímenn. Einnig hafa samtökin MLF (Macina Liberation Front) lýst yfir ábyrgð á árásinni en þau eru talin tengjast öðrum árásum í Suður-Malí.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert