Yfir 90% Svía fylgjandi banni á neyslu eiturlyfja

Háværar raddir eru um að lögleiða eigi fíkniefnaneyslu í Svíþjóð …
Háværar raddir eru um að lögleiða eigi fíkniefnaneyslu í Svíþjóð en svo virðist sem þjóðin sjálf sé á annarri skoðun. AFP

Mikill meirihluti Svía telur að kannabis og önnur eiturlyf eigi að vera bönnuð í landinu þrátt fyrir að umræða um lögleiðingu kannabis hafi farið hátt þar í landi líkt og víða annars staðar.

Í könnun Sifo kemur fram að tæpt 91% þeirra sem tóku þátt í könnuninni telji að neysla eiturlyfja eigi að vera áfram ólögleg. 7% voru á móti banni og á milli 2 og 3% gáfu ekki upp afstöðu sína.

Það voru einkum íbúar Stokkhólms sem gátu hugsað sér að lögleiða eiturlyf en 82% borgarbúa vilja að neysla eiturlyfja verði áfram ólögleg. Íbúar í Norður- og Suður-Svíþjóð eru hins vegar nánast allir, 94-95%, fylgjandi áframhaldandi banni.

Þrátt fyrir að ríkisstjórn landsins styðji ekki hugmyndir um að aflétta banni við neyslu eiturlyfja eins og kannabis þá hafa ýmsir farið hátt í umræðunni og segja að slík lögleiðing geti nýst í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Árið 2012 voru 412 dauðsföll rakin til fíkniefnaneyslu í Svíþjóð, sem er tvöfalt fleiri en árið 2004 þegar dauðföllin voru 188 talsins.

Meira um könnunina

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert