NATO boðar til aukafundar

Rússneskar Sukhoi Su-24 sprengjuflugvélar
Rússneskar Sukhoi Su-24 sprengjuflugvélar AFP

Rússnesk yfirvöld líta á það mjög alvarlegum augum að Tyrkir hafi skotið niður sprengjuflugvél rússneska hersins í morgun. Atlantshafsbandalagið fylgist grannt með en Tyrkland er eitt aðildarríkja NATO. Varnarbandalagið hefur boðað til aukafundar vegna málsins.

Staðfest hefur verið að Su-24 sprengjuflugvélin var skotin niður af tyrkneska hernum á landamærum Sýrlands. Flugmönnunum tókst að komast út úr flugvélinni áður en hún brotlenti og er talið að þeir séu jafnvel í haldi vígamanna sem ráða yfir þessu svæði í Latakia héraði.

Nýjar upplýsingar voru að berast klukkan 12 um að annar flugmaðurinn sé látinn en hinn horfinn.

Rússnesk yfirvöld fordæma atvikið en hafa ekki viljað tjá sig frekar eftir að yfirvöld í Ankara staðfestu að Tyrkir höfðu skotið vélina niður. 

„Þetta er mjög alvarlegt atvik,“ segir talsmaður Rússlandsforseta, Dmitrí Peskov. En segir að það sé ekki tímabært að fullyrða neitt að svo stöddu þegar heildarmyndin liggur ekki fyrir.

Samkvæmt frétt BBC segir varnarmálaráðuneyti Rússlands að vélin hafi verið skotin af jörðu niðri. En yfirmenn í tyrkneska hernum segja að vélin hafi verið skotin niður af áhöfn F-16 hervélar eftir ítrekaðar viðvararnir um að rússnesku flugmennirnir væru komnir inn fyrir lofthelgi Tyrkja.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands staðfestir að vélin hafi brotlent í sýrlensku svæði en henni hafi verið flogið í 6 þúsund metra hæð (19.685 feta hæð) þegar hún var skotin niður.

Unnið er að því að fá upplýsingar um flugmennina en samkvæmt fyrstu upplýsingum bendir allt til þess að þeir hafi sjálfir komist frá borði.

Ráðuneytið segir að S-24 flugvélin hafi aldrei farið inn í lofthelgi Tyrklands og verið á sýrlensku yfirráðasvæði allan tímann. Upplýsingar úr hlutlausu vöktunarkerfi sýni það.

Fréttamaður BBC segir að atvikið í morgun sé það sem margir hafi óttast síðan Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi. Hætta fylgi aðgerðum svo skammt frá landamærum Tyrklands og að tyrkneskar herflugvélar hafi þegar skotið niður að minnsta kosti eina sýrlenska herþotu og jafnvel herþyrlu einnig.

Rússar halda því fram að þeir hafi ekki rofið tyrkneska lofthelgi en hvað ef mælingar (navigation) flugmannanna eru ekki réttar? Eins muni vakna spurningar um rétt Tyrkja til þess að skjóta á herflugvélar.

Yfirmenn tyrkneska hersins segja að skotið hafi verið á flugvélina úr F-16 flugvél hersins eftir að hafa varað flugmennina við í tíu skipti á innan við fimm mínútum um að þeir væru komnir inn fyrir lofthelgi Tyrkja. Ekki hafi verið vitað hvaða vél þetta væri.

Samtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að rússneska vélin hafi brotlent í Jabal Turkmen í Latakia héraði þar sem loftárásir og bardagar geisa á milli uppreisnarmanna og sýrlenska hersins.

Al Jazeera sjónvarpsstöðin hefur eftir félaga í túrkmenskum uppreisnarhópi að þeir hafi tekið annan af flugmönnum höndum og leiti hins.

Rússnesk herþota skotin niður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert