Svissnesk kantóna bannar höfuðslæður

Kona í svokölluðum niqab.
Kona í svokölluðum niqab. AFP

Ef þing kantónunnar Ticino í Sviss fær sínu framgengt verður konum bannað að klæðast slæðum sem hylja andlit þeirra. Bannið, sem naut stuðnings 65% íbúa samkvæmt atkvæðagreiðslu 2013, tekur gildi í apríl að gefnu samþykki stjórnvalda Ticino.

Innblástur bannsins er sóttur í umdeild frönsk lög frá 2011, þar sem konum var bannað að klæðast svokölluðum niqab, þ.e. klæðum sem hylja konur frá toppi til táar og þar með talið andlitið, á almannafæri.

Stjórnvöld í hinni ítölskumælandi Ticino höfðu hvatt þingið til að samþykkja frumvarp sem næði til allra sem kunna að velja að hylja andlit sitt á almannafæri, svo sem uppþotaseggja og mótmælenda, en þingið ákvað að beina spjótum sínum að klæðaburði múslimskra kvenna.

Viðurlög við brotum verður sekt á bilinu 92-9.230 evrur.

Lögin gera ekki ráð fyrir að ferðamönnum verði veitt undanþága frá banninu og fyrirhugað er að setja upp viðvörunarskilti á flugvöllum og við landamæri. Um það bil 40.000 túristar frá Mið-Austurlöndum sóttu Ticino heim í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert