Vilja ekki fleiri flóttamenn til Noregs

Fjölmargir þeirra sem sækja um hæli í Noregi koma þangað …
Fjölmargir þeirra sem sækja um hæli í Noregi koma þangað frá Rússlandi. AFP

Ákvörðun norskra yfirvalda um að herða reglur sem gilda um hælisleitendur í þeirri von að draga úr komum flóttafólks til landsins virðist vinsæl meðal almennings því tveir af hverjum þremur telja að ekki eigi að taka við fleira flóttafólki þar í landi.

Þetta er niðurstaða könnunar Ipsos MMI sem birt var á laugardag en samkvæmt henni telja 42% að taka eigi á móti færri flóttamönnum en nú er gert, 25% segja að ekki eiga taka á móti fleiri en 28% telja að Noregur eigi að taka við fleiri flóttamönnum en nú er gert. Þetta eru mikil umskipti frá könnun sem gerð var fyrir fimm mánuðum, samkvæmt frétt The Local. Þá töldu 42% aðspurðra að taka ætti á móti fleiri flóttamönnum en 31% taldi að taka ætti á móti færri.

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, segir í viðtali við Dagbladet að hún sé sammála þjóð sinni að of margir flóttamenn séu að koma til Noregs. Mikilvægt sé að takmarka komu þeirra sem sækja um hæli en eiga ekki möguleika á að fá hæli. Það sé norsku samfélagi fyrir bestu. Með því sé hægt að tryggja betur að þeir sem virkilega þurfa á vernd að halda aðlagist norsku samfélagi betur.

Það sem af er ári hafa 29 þúsund sótt um hæli í Noregi en alls eru íbúar landsins 5,2 milljónir talsins.

AFP
Frá Kirkenes í Norður-Noregi - miðstöð fyrir flóttafólk.
Frá Kirkenes í Norður-Noregi - miðstöð fyrir flóttafólk. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert