Birta nöfn og heimilisföng múslíma

AFP

Samtök sem berjast gegn múslímum í Bandaríkjunum, Bureau of American Islamic Relations, hafa birt nöfn og heimilisföng fólks sem eru múslímar eða eru „velunnarar múslíma“ á Facebook síðu sinni.

Félagar í samtökunum tóku þátt í mótmælum fyrir utan miðstöð múslíma í Dallas, Texas í síðustu viku, vopnaðir.

Í frétt Guardian kemur fram að skýringin á því að samtökin ákváðu að birta nöfn fólksins og heimilisföng sé vaxandi spenna í norðurhluta Texas vegna árásanna í París 13. nóvember.

Samtökin, sem kalla sig Bureau of American Islamic Relations, skipulögðu mótmæli í úthverfi Dallas, Irving, á laugardaginn. David Wright, talsmaður samtakanna, segir í viðtali við Fox sjónvarpsstöðina að þau mótmæli því að sýrlenskir flóttamenn komi til Bandaríkjanna og eins sé íslamvæðingu Bandaríkjanna mótmælt.

Yfir 50 nöfn eru á listanum og telja margir múslímar í hverfinu að sér sé ógnað. Ekki síst eftir að hverfisstjórinn í Irving, Beth Van Duyne, ýjaði að því að dómstóll sem fylgdi sjaría-lögum væri starfandi í hverfinu.

Alia Salem, framkvæmdastjóri ráðs múslíma í Bandaríkjunum, Council on American-Islamic Relations (CAIR), segir að andrúmsloftið í mótmælunum á laugardag hafi verið mjög ógnandi. Mótmælendur voru vopnaðir Ar-15 rifflum og huldu andlit sín.

Hún segir að frá árásunum í París hafi CAIR fengið fjölmörg hatursskilaboð og henni sjálfi hafi verið hótað í tvígang.

Saur og rifnum blaðsíðum úr kóraninum hafi verið hent að moskunni í Pflugerville, úthverfi Austin.

Samkvæmt upplýsingum frá samtökum múslíma á landsvísu þá hafa ekki borist jafn margar hótanir í garð múslíma í Bandaríkjunum á jafn stuttum tíma og nú frá árásunum í París síðan í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001. 

Er það meðal annars rakið til íslamhræðslu stjórnmálamanna og forsetaframbjóðenda en margir ríkisstjórar hafa neitað því að taka á mót sýrlenskum flóttamönnum í kjölfar árásanna í París.

Það eru um 200 þúsund múslímar búsettir á Dallas-Fort Worth svæðinu. 

Frétt Guardian í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert