Hvarf í Svíþjóð en fannst í Frakklandi

Mynd af ketti úr safni
Mynd af ketti úr safni Af vef Wikipedia.

Sænskur kattaeigandi klórar sér í hausnum og reynir að átta sig á ævintýralegu ferðalagi kattar í hans eigu. Kötturinn hvarf fyrir átta vikum síðan í Bromölla í S-Svíþjóð en fannst í Suður-Frakklandi, 1700 km í burtu frá heimili sínu.

Sammy Karlsson, eigandi kattarins Glitter, sem er níu ára gamall, hélt að hann myndi aldrei hitta kött sinn aftur eftir að hann strauk að heiman en mjög var fjallað um ferðalag Glitters í sænskum fjölmiðlum í gær.

Í viðtali við sænska ríkissjónvarið sagði Karlsson að Glitter hafi oft strokið að heiman en yfirleitt skilað sér aftur innan viku. En í þetta skiptið hafi hann álitið að kisi kæmi ekki heim aftur.

Það var síðan á föstudaginn sem hringt var í hann frá Nimes í Suður-Frakklandi og Karlsson spurður um hvort hann þekkti Glitter því örflaga sem grædd er í eyra kattarins gaf til kynna hver hann væri.

„Ég hélt að þetta væri grín. En þau sendu myndir og þetta er hann. Hann er með fjólubláa ól.“ Hvernig Glitter endaði í Suður-Frakklandi er óleyst gáta en Karlsson segir að franskir ferðamenn leggi leið sína til Bromölla á hverju sumri og væntanlega hafi Glitter smyglað sér til Frakklands með einhverjum þeirra.

Karlsson vonast til þess að Glitter verði kominn heim fyrir jól en fyrst þurfi hann að fá franskt vegabréf og bólusetningu við hundaæði.

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert