Óréttlæti í álfu vonarinnar

Frans páfi er þessa dagana á ferð í heimsókn til þriggja Afríkulanda. Í ávarpi sínu í í fátækrahverfi í höfuðborg Keníu, Nairobi, fordæmdi hann auðsöfnun fámenns minnihluta á kostnað „vaxandi meirihluta sem neyðist til þess að flýja á yfirgefin, niðurnídd jaðarsvæði.“

Frans kallaði Afríku „álfu vonarinnar“ á ferð sinni en alls er áætlað að um 100.000 manns hafi hlýtt á ávarp páfa í Kangemi fátækrahverfinu í Nairobi, þar af margir sem biðu næturlangt eftir tækifæri til þess að vera viðstaddir. Páfi gerði félagslegar aðstæður fólksins að umtalsefni sínu, en ávarpi hans í fátækrahverfinu var beðið með nokkurri eftirvæntingu.

„Ég er hingað kominn því ég vil láta ykkur vita að ég er ekki skeytingarlaus gagnvart gleði ykkar, vonum og sorgum,“ sagði páfi.

Spilling eitrar innan frá

Spilling var svo ofarlega á baugi í máli hans á þjóðarleikvangi Úganda þar sem hann flutti ávarp stuttu seinna. Þar líkti hann spillingu við sykur, en spilling er almennt talin landlæg og alvarlegt vandamál í Úganda.

„Spilling er eitthvað sem étur þig innan frá. Hún er eins og sykur - sæt. Eftir á, verðum við svo illa farin... eftir svo mikinn sykur að við fáum sykursýki, land okkar verður eins og með sykursýki.“

Þá varaði hann við hættum öfgasamtaka, sem tæli til sín ungt fólk fólk. „Fólkið yfirgefur vini sína, ættbálka og lönd sín. Það yfirgefur líf sitt til þess að drepa. Það er samfélagsleg hætta sem er okkur stærri... því hún þrífst á óréttlátu alþjóðlegu kerfi sem miðast ekki við einstaklinginn heldur guð peninganna.“ Atvinnu og menntun sagði hann lykilinn í að berjast gegn uppgangi slíkra samtaka.

Síðasta landið sem páfi heimsækir verður Mið-Afríkulýðveldið, þar sem borgarastyrjöld hefur staðið yfir undanfarið. Þangað er Frans væntanlegur á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert