„Mein Kampf“ gefin út aftur í Þýskalandi

Bók Adolfs Hitler, „Mein Kampf“, hefur ekki komið út í Þýskalandi frá því í síðari heimsstyrjöldinni. Á því verður breyting í næsta mánuði þegar höfundaréttur á bókinni rennur út. Ýmis samtök gyðinga hafa gagnrýnt útgáfuna en þau telja bókina hættulega og að aldrei ætti að prenta hana aftur.

Samtímasögustofnunin í München ætlar að gefa bókina út en með um það bil 3.500 textaskýringum. Hún á að koma út í tveimur bindum sem eru samtals 1.948 blaðsíður. Forstöðumaður stofnunarinnar gerir ráð fyrir að hún komi í hillur bókabúða á milli 8. og 11. janúar.

Hitler skrifaði bókina á meðan hann sat í fangelsi eftir misheppnaða valdaránstilraun árið 1924. Hún er nokkurs konar sjálfsævisöguleg stefnuyfirlýsing verðandi harðstjórans þar sem hann gerir grein fyrir hugmyndafræði sinni og áformum fyrir Þýskaland.

Bandamenn afhentu héraðsstjórninni í Bæjaralandi höfundaréttinn að bókinni eftir seinni heimsstyrjöldina og hefur hún neitað að leyfa endurútgáfur á henni af virðingu við fórnarlömb nasista og til að forðast að egna til haturs.

Andreas Wirsching, forstöðumaður Samtímasögustofnunarinnar, segir að tilgangurinn með því að gefa út bókina með ítarlegum textaskýringum sé að „splundra goðsögninni“ í kringum bókina. Hún væri ekki aðeins heimild fyrir rannsóknir á hugmyndafræði nasista heldur tákn og einar síðustu minjarnar um þriðja ríkið.

Mein Kampf kom fyrst út árið 1925. Eigendur höfundaréttarins hafa …
Mein Kampf kom fyrst út árið 1925. Eigendur höfundaréttarins hafa staðið gegn því að bókin verði endurútgefin en rétturinn rennur út um áramótin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert