Ákærður fyrir morð á Vítisengli

Vítisenglar, Hells Angels
Vítisenglar, Hells Angels Af vef Europol

Rúmlega tvítugur Bandaríkjamaður hefur verið ákærður fyrir að hafa rænt og myrt ástralskan mann á fertugsaldri sem var liðsmaður Vítisengla. Lík hans fannst grafið í skóglendi í Taílandi fyrr í vikunni.

Wayne Rodney Schneider, 37 ára, var rænt af nokkrum mönnum fyrir utan heimili sitt á mánudag í subbulegum strandbæ í Pattaya sem er þekkt fyrir sóðalega bari og tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.

Að sögn öryggisvarða sem voru vitni að ráninu var Ástralinn barinn til óbóta og síðan hent rænulausum í sendibifreið. Daginn eftir fannst lík hans grafið í skógi fyrir utan borgina.

Bandaríkjamaðurinn, sem er 21 árs, hefur ekki verið nafngreindur, en hann er ákærður fyrir aðild að morði og mannráni og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur, að sögn lögreglu.

Á maðurinn að hafa játaða að hafa ekið sendibílnum en neitar að hafa myrt fórnarlambið og segist ekki vita neitt um morðið.

Lögreglan leitar nú að Ástralanum Antonio Bagnato, 27 ára, sem er talinn höfuðpaurinn í mannráninu og morðinu en hann hafði setið að sumbli með Schneider skömmu áður en hann hvarf. Talið er að hann hafi flúið land en réttarmeinarannsókn sýnir að banamein Schneiders er hálsbrot. Þrír aðrir eru grunaðir um aðild að morðinu og er þeirra leitað.

Schneider hafði verið í Taílandi í um það bil einn mánuð er hann var myrtur. Ekki er vitað hvers vegna morðið var framið en ekki er útilokað að það tengist eiturlyfjaviðskiptum. Hann hefur ítrekað komist í kast við lögin í heimalandinu í tengslum við aðild að Vítisenglum. Samtökin eru talin stórtæk í undirheimum Pattaya.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert