Yfirbuguðu farþega í miðju flugi

AFP

Áhöfn og farþegar um borð í farþegaþotu þýska flugfélagsins Lufthansa yfirbuguðu karlmann sem var að eiga við dyr þotunnar í dag. Vélin var að fljúga frá Frankfurt í Þýskalandi til Belgrað í Serbíu.

Andreas Bartels, talsmaður Lufthansa, segir að farþeginn hafi staðið upp og byrjað að gera eitthvað við dyrnar. Honum tókst hins vegar ekki að gera mikið þar sem áhöfnin og farþegar gripu inn í. 

Bartels segir að farþeganum hafi verið komið fyrir í sæti og haldið þar, eða þar til vélin lenti í Serbíu. Þar tóku þarlend yfirvöld við manninum.

„Þetta eru venjulegar dyr, sem maður getur ekki opnað i miðju flugi [...] þetta voru ekki dyr að flugstjórnarklefanum,“ segir Bartels ennfremur og vísaði þar með á bug fréttum þess efnis sem höfðu birst í serbneskum fréttum.

„Flugöryggi var ekki ógnað og vélin lenti örugglega í Belgrað.“

Talsmaðurinn neitar að gefa upp upplýsingar um nafn eða þjóðerni farþegans. Þá vill hann ekki gefa upp hvað maðurinn sagði á meðan þessu stóð. 

Farþegi hefur aðra sögu að segja

Serbneska ríkissjónvarpið greindi frá því að lögreglan hefði handtekið karlmann frá Jórdaníu er hann reyndi að brjótast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar. Þar segir ennfremur að maðurinn hafi staðið skyndilega upp í miðju flugi, byrjað að berja á hurðina og krafist þess að fá að komast inn. Þá hafi hann hótað að opna dyrnar á meðan vélin, sem er af gerðinni Airbus A319, var á flugi yfir Austurríki. 

Fjölmiðlar í Serbíu segja að maðurinn hafi verið með bandarískt vegabréf. Þeir segja einnig, að hann hafi hrópað að hann hefði viljað hitta Allah ásamt öllum hinum farþegunum. 

Áhöfnin og liðsmenn úr serbnesku handboltaliði yfirbuguðu manninn og héldu honum þar til vélin lenti í Serbíu. 

Miljan Djukic, forseti handboltafélagsins, var um borð. Hann sagði í samtali við fjölmiðla að maðurinn hefði virkað mjög taugaóstyrkur áður en hann gekk um borð. 

„Ég ræddi stuttlega við hann og hann var mjög taugaóstyrkur. Áður en vélin tók á loft, þá höfðu flugþjónarnir beðið hann um að skipta um sæti í þrígang,“ sagði Djukic í samtali við fréttastöðina Moja Prva í Serbíu.

„Þegar hann stóð upp, þá gekk hann í gegnum viðskiptafarrýmið og hóf að berja á hurðina og krafðist þess að dyrnar yrðu opnaðar,“ sagði Djukic jafnframt.

„Einum úr áhöfninni og einum af þjálfurunum okkar tókst að róa manninn og sannfæra hann um setjast niður.“

Hann bætir við að mennirnir og tveir aðrir úr liðinu hefðu setið hjá manninum og séð til þess að hann héldi ró sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert