Slóvenar kjósa um hjónabönd samkynja para

Kosningaþátttaka var dræm en sigursvarið; hvort sem það verður já …
Kosningaþátttaka var dræm en sigursvarið; hvort sem það verður já eða nei, þarf að hljóta atkvæði 20% kosningabærra manna. AFP

Slóvenar gengu til kosninga í dag um hjónabönd samkynja para. Ef niðurstaðan verður að heimila sam- og tvíkynhneigðum að ganga í hjónaband, verður Slóvenía fyrsta fyrrverandi kommúnistaríkið í Evrópu til að heimila samkynja hjónabönd.

Yfir 1,7 milljón manna voru á kjörskrá en kjörsókn var dræm. Málið er afar umdeilt en í mars sl. samþykkti þingið lög þar sem hjónbandið var skilgreint sem „samband tveggja“ í stað „samband karls og konu“. Lögin hefðu haft það í för með sér að samkynja pör hefðu öðlast rétt til að ættleiða börn.

Þrátt fyrir samþykki þingsins tóku lögin aldrei gildi vegna gríðarlegrar andstöðu. Hópur sem kallar sig „Börn erú í húfi“ safnaði 40.000 undirskriftum gegn breytingunum, sem er sá fjöldi sem þarf til að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá lét Frans páfi sig málið varða og hvatti Slóvena til að standa vörð um hefðbundin fjölskyldugildi.

Síðasta skoðanakönnunin um málið, sem ríkissjónvarpið birti á föstudag, leiddi í ljós að 55,5% kjósenda væru á móti samkynja hjónaböndum. Samkvæmt öðrum skoðanakönnunum er bilið minna.

„Ég kaus . Ást er ást, óháð öllu öðru,“ sagði 24 ára kona að nafni Ida í samtali við AFP. Annar kjósandi sagðist einnig fylgjandi breytingunni, en það væri peningasóun að bera málið undir þjóðaratkvæði. „Það ættu að vera sérfræðingar eða ríkisstjórnin sem ákveður þetta. Þeir eiga ekki að láta okkur ráða þessu,“ sagði ellilífeyrisþeginn Vojko.

Vojko sagði að ef niðurstaðan yrði nei myndi umheimurinn hlæja að Slóvenum.

Þjóðin virðist klofin.

Á vegg safnaðarheimilis nærri kjörstað hefur einhver krotað: „Myndir þú taka við blóði úr samkynhneigðum blóðgjafa til að bjarga barninu þínu?“ Annar lífeyrisþegi sem er fylgjandi hjónaböndum samkynja para vill ekki að þau fái að ættleiða börn.

Kosningarnar verða aðeins gildar ef 20% kosningabærra manna kjósa það svar sem fær fleiri atkvæði. Slóvenar hafa áður kosið um málið, árið 2012, en þá var svarið nei.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert