Raðmorðingi tekinn af lífi

Oscar Ray Bolin
Oscar Ray Bolin

Fyrrverandi vörubílstjóri var tekinn af lífi í Flórída í nótt fyrir að hafa myrt þrjár ungar konur árið 1986. Hann komst aftur í fréttirnar síðar þegar lögmaður hans gekk að eiga hann í fangelsi.

Oscar Ray Bolin, 53 ára, var fyrsti fanginn sem tekinn var af lífi í Bandaríkjunum í ár en hann fékk banvæna sprautu klukkan 22:16 að staðartíma, klukkan 3:16 í nótt að íslenskum tíma. Bolin var einnig dæmdur fyrir mannrán og nauðgun í öðru sakamáli en því sem hann var dæmdur til dauða fyrir. Hann áfrýjaði dauðarefsingunni og réttað var í morðmálunum þremur en var aftur dæmdur sekur og til dauða. Fórnarlömb hans voru 17, 25 og 26 ára.

Bolin komst aftur í kastljós fjölmiðla eftir að lögfræðingur sem aðstoðaði við vörn hans yfirgaf eiginmann sinn fyrir hann.  Lögfræðingurinn Rosalie Martinez, gift fjögurra barna móðir, gekk að eiga Bolin árið 1996 í fangelsinu og var sent beint frá brúðkaupinu í sjónvarpi. Í tvo áratugi hefur hún barist fyrir því að fá lífi hans þyrmt án árangurs.

28 fangar voru teknir af lífi í Bandaríkjunum í fyrra og hafa þeir ekki verið jafn fáir síðan árið 1991.

Bolin var fundinn sekur um að hafa myrt Stephanie Collins, 17 ára, Teri Lynn Matthews 26 ára og Natalie Holley, 25 ára. Konurnar voru allar myrtar árið 1986.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert