Gervilimum og sleipiefni rignir yfir hernámsmennina

Liðsmaður vopnuðu sveitarinnar á Malheur-náttúruverndarsvæðinu í Oregon sem hefur fengið …
Liðsmaður vopnuðu sveitarinnar á Malheur-náttúruverndarsvæðinu í Oregon sem hefur fengið gervilimi og sleipiefni í pósti undanfarið. AFP

Þegar vopnaða sveitin sem heldur náttúruverndarsvæði í Oregon í hernámi óskaði opinberlega eftir vistum létu viðbrögð almennings ekki á sér standa. Liðsmenn sveitarinnar hafa fengið sendan fjöldann allan af gervigetnaðarlimum, við litla hrifningu þeirra, og nú síðast hundruð lítra af sleipiefni.

Hernámið hefur nú staði yfir í rétt tæpar tvær vikur. Fljótlega uppgötvuðu liðsmenn sveitarinnar að þeir væru ekki nægilega vel birgðir fyrir langt hernám en þeir hafa sagst tilbúnir að halda kyrru fyrir á Malheur-náttúruverndarsvæðinu eins lengi og þörf krefur til að knýja alríkisstjórnina til að láta eftir stjórn á landsvæðinu. Þeir óskuðu þess vegna opinberlega eftir vistum.

Ekki eru allir eins hrifnir af uppátæki vopnuðu mannanna og létu sumir óánægju sína í ljós með að senda sveitinni mikið magn af gervigetnaðarlimum. Hönnuðurinn Max Temkin í Chicago gekk hins vegar skrefinu lengra og birti kvittun á Twitter-síðu sinni sem bendir til þess að hann hafi sent vopnuðu sveitinni rúmlega tvö hundruð lítra tunnu af sleipiefni.

Engum sögum fer af því hvort að meðlimir sveitarinnar hafi fundið einhver not fyrir kynlífshjálpartækin en miðað við myndband sem einn þeirra birti var þeim ekki hlátur í huga yfir sendingunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka