Einn látinn eftir lyfjaprófanir

Það var fyrirtækið Biotrial í Rennes sem framkvæmdi prófanirnar.
Það var fyrirtækið Biotrial í Rennes sem framkvæmdi prófanirnar. AFP

Maður sem varð heiladauður eftir að hafa tekið þátt í lyfjaprófunum í Frakklandi er látinn. Ástandi fimm annarra sjúklinga, sem einnig tóku þátt í prófununum, er lýst sem stöðugu. Þeir liggja á sjúkrahúsi í borginni Rennes.

Frétt mbl.is: Alvarlegt slys við lyfjaprófun

Prófanirnar voru framkvæmdar af rannsóknarstofunni Biotrial, sem var að rannsaka nýtt verkjalyf, en það var einnig ætlað til meðhöndlunar á sjúkdómum á borð við kvíða. Framleiðandi lyfsins var portúgalska lyfjafyrirtækið Bial en um var að ræða fyrstu prófanir á mönnum.

Alls tóku 108 þátt í prófununum, þar af var 90 gefnir misstórir skammtar af lyfinu en hinum lyfleysa. Mennirnir sex sem voru lagðir inn á sjúkrahús tilheyrðu allir hópnum sem fékk sterkasta skammtin af lyfinu.

Frétt mbl.is: Fimm skaddaðir eftir lyfjaprófun

Á föstudag sagði Pierre-Gilles Edan, yfirmaður taugadeildar sjúkrahússins í Rennes, að þrír hefðu hlotið óafturkræfan heilaskaða og einn sýndi merki taugaskemmda. Einn sýndi ekki merki þess að hafa orðið meint af lyfjatökunni en var undir eftirliti.

Búið er að hafa samband við hina þátttakendurna 84 sem fengu lyfið og rannsaka tíu. Þar komu ekki í ljós þau „frábrigði“ sem eru sögð hafa komið fram hjá þátttakendunum sem fengu sterkasta skammtinn.

Frétt mbl.is: Rannsóknri hafnar á lyfjaslysinu

Tilvikið er það alvarlegasta sem komið hefur upp í Frakklandi og þrjár aðskildar rannsóknir hafa verið settar af stað vegna þess. Meðal þess sem verður athugað er hvort heilsutjón mannanna megi rekja til verkferla eða lyfsins sjálfs.

Harmleikir af þessu tagi hafa átt sér stað í öðrum löndum, t.d. í Lundúnum árið 2006, þegar sex einstaklingar sem tóku lyfið TGN1412 urðu alvarlega veikir og þjáðust m.a. af líffærabilun.

Það lyf var framleitt af þýska fyrirtækinu TeGenero og ætlað að meðhöndla krabbamein og ýmsa ónæmissjúkdóma. Allir þeirra sem veiktust lifðu en einn missti alla fingur og tær. Lýstu sjúklingarnir því að hafa upplifað að heilinn væri að brenna og augun að detta úr þeim. Læknar sögðu að ónæmiskerfi viðkomandi myndu aldrei starfa sem skyldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert