Yfirheyrður af lögreglu vegna stafsetningarvillu

Af Wikipedia

Tíu ára múslimi í Bretlandi hefur nú verið rannsakaður af lögreglu eftir að hann gerði einfalda stafsetningarvillu í enskutíma. Drengurinn skrifaði að hann byggi í „hryðjuverkahúsi“ (e. terrorist house) í staðinn fyrir „raðhúsi“ (e. terraced house).

Drengurinn hefur verið yfirheyrður af lögreglunni í Lancashire og þá var tölva fjölskyldunnar skoðuð. Síðan í júlí hafa kennarar í Bretlandi verið skyldugir til að tilkynna alla hegðun sem gæti bent til öfgaskoðana.

Fjölskylda drengsins segist vera í áfalli vegna málsins sem kom upp í síðasta mánuði, og vill að skólinn og lögreglan biðjist afsökunar.

Frænka drengsins, sem neitaði að koma fram undir nafni, sagði í samtali við BBC að fjölskyldan hefði fyrst haldið að um brandara væri að ræða. „Maður getur ímyndað sér að eitthvað svona komi fyrir þrítugan mann, en ekki ungt barn,“ sagði hún. „Ef kennarinn á að hafa áhyggjur af einhverju þá er það frekar stafsetningin hans. Það á ekki að láta barn ganga í gegnum eitthvað svona,“ sagði frænkan. „Hann er nú hræddur við að skrifa og nota ímyndunaraflið.“

Miqdaad Versi, varaformaður Múslimaráðs Bretlands, segir að svona mál komi reglulega upp. Börn undir átján ára aldri, sem eru aðeins að reyna að lifa sínu daglega lífi, eru undir smásjá öryggisaðila og er litið á þau sem mögulega hryðjuverkamenn en ekki nemendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert